Erlent

For­sætis­ráð­herra Bresku jóm­frúar­eyja á­kærður fyrir kókaín­smygl

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Andrew Fahie forsætisráðherra Bresku jómfrúareyja hefur verði handtekinn í Bandaríkjunum grunaður um peningaþvætti og fíkniefnasmygl.
Andrew Fahie forsætisráðherra Bresku jómfrúareyja hefur verði handtekinn í Bandaríkjunum grunaður um peningaþvætti og fíkniefnasmygl. AP Photo

Forsætisráðherra Bresku jómfrúareyja hefur verið ákærður fyrir peningaþvætti og kókaínsmygl. Lögmaður hans segir að hann muni lýsa yfir sakleysi sínu fyrir dómstólum í Bandaríkjunum. 

Andrew Fahie, forsætisráðherra Bresku jómfrúareyja, var í síðustu viku handtekinn í Miami í Flórída af lögreglumönnum í bandarísku fíkniefnalögreglunni, DEA, sem þóttust vera mexíkóskir fíkniefnasmyglarar. 

Hinn 51 árs gamli Fahie hefur síðan verið ákærður fyrir peningaþvætti og fíkniefnasmygl. Bandarískur dómari hefur síðan úrskurðað að Fahie verði sleppt úr haldi og hann fái að ganga laus fram að aðalmeðferð málsins, svo lengi sem hann fylgi nokkrum reglum. 

Fahie fær að vera áfram í húsi sem hann hefur leigt fyrir dætur sínar tvær í Miami, svo lengi sem hann og fjölskylda hans láti af hendi vegabréf þeirra. Hann verður þá að bera staðsetningartæki um ökklann og greiða 500 þúsund dollara, eða um 65 milljónir króna,  í tryggingu. 

Saksóknarar hyggjast áfrýja ákvörðun dómarans um að leysa hann úr haldi svo óvíst er hvort hann fái að ganga laus fram að aðalmeðferð málsins. 

Sakaður um víðtæka og rótgróna spillingu

Fahie hélt því fram í yfirlýsingu sem hann gaf út á mánudag að ekki væri hægt að sækja hann til saka í Bandaríkjunum þar sem hann er lýðræðislega kjörinn og leiðtogi ríkisstjórnar á yfirráðasvæði Breta. 

Natalio Wheatley mun vera starfandi forsætisráðherra á eyjunum á meðan á málaferlum stendur. Hann getur hins vegar ekki tekið formlega við stöðunni fyrr en hann verður formlega settur í embætti eftir að Fahie segir af sér. 

Áður en Fahie var handtekinn hafði hann verið sakaður um spillingu og opnuð hafði verið rannsókn á meintum brotum hans í embætti. Niðurstöður rannsóknarinnar bentu til þess að Fahie hafði gefið grænt ljós á að milljónir dala færu í verkefni sem annað hvort kláruðust ekki eða nýttust almenningi ekki á nokkurn hátt. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×