Liverpool vann þá 3-2 útisigur á spænska liðinu Villarreal og þar með 5-2 samanlagt.
Úrslitaleikurinn í París í lok mánaðarins er vissulega ekki heimaleikur Liverpool en hann er heldur ekki útileikur. Það þýðir jafnframt að Liverpool er búið að spila sinn síðasta útileik í Meistaradeildinni á leiktíðinni og ekki er hægt að kvarta yfir árangrinum.
Liverpool hefur unnið alla sex útileiki sína í keppninni í ár og er fyrsta liðið í sögunni til að vinna alla sex útileiki sína á einu Meistaradeildartímabili.
Liverpool vann útileiki sína á móti Atlético Madrid (3-2), Porto (5-1) og AC Milan (2-1) í riðlakeppninni og hefur síðan unnið útileiki sína á móti Internazionale (2-0), Benfica (3-1) og Villarreal (3-2) í útsláttarkeppninni.
Markatala liðsins í þessum sex útileikjum er 18-7 eða ellefu mörk í plús. Liðið hefur skorað tvö mörk eða fleiri í öllum sex leikjunum.
Liverpool hefur mistekist að vinna tvo af sex Meistaradeildarleikjum sínum á Anfield á leiktíðinni en eina tapið kom á móti Internazionale í sextán liða úrslitunum.