Man United með sann­færandi sigur í síðasta heima­leik tíma­bilsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Juan Mata og Cristiano Ronaldo fagna marki þess síðarnefnda.
Juan Mata og Cristiano Ronaldo fagna marki þess síðarnefnda. Catherine Ivill/Getty Images

Manchester United vann 3-0 sigur á Brentford í eina leik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Var þetta síðasti leikur Man Utd á Old Trafford á leiktíðinni og nokkrir leikmenn að leika sinn síðasta heimaleik fyrir félagið.

Bruno Fernandes kom heimamönnum yfir eftir níu mínútna leik þegar hann afgreiddi boltann snyrtilega í netið eftir frábæra sendingu Antony Elanga. Áður en heimamenn komu boltanum aftur í netið hafði Cristiano Ronaldo sóst eftir vítaspyrnu þegar hann féll í teignum og Juan Mata átt gott skot sem rataði ekki á markið.

Það voru þeir tveir sem bjuggu til annað mark Man United í leiknum en Mata lagði boltann þá fyrir markið þar sem Ronaldo kláraði vel. Því miður fyrir þá tvo og Man Utd þá var Ronaldo hársbreidd fyrir innan og staðan því 1-0 í hálfleik.

Þegar slétt klukkustund var liðin af leiknum komst Ronaldo hins vegar á blað. Markið kom úr vítaspyrnu eftir að Rico Henry braut klaufalega á Portúgalanum. Vítaspyrnan var einkar örugg og Ronaldo kominn með 18 mörk í ensku úrvalsdeildinni og 24 í öllum keppnum.

Rafael Varane skoraði þriðja mark Man United á 72. mínútu þegar hann skilaði hornspyrnu Alex Telles í netið. Staðan orðin 3-0 og reyndust það lokatölur kvöldsins.

Í kjölfarið á þriðja markinu voru þeir Nemanja Matic og Juan Mata teknir af velli en þeir voru að leika sinn síðasta heimaleik fyrir félagið. Inn af bekknum komu þeir Phil Jones og Edinson Cavani en reikna má með að þeir verði ekki heldur áfram í herbúðum Man United.

Manchester United er með 58 stig í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 36 leiki. Nýliðar Brentford eru í 14. sæti með 40 stig og ljóst að liðið heldur sæti sínu í deild þeirra bestu nema eitthvað ótrúlegt gerist.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.