Enski boltinn

Álag á Liverpool í lokaviku ensku úrvalsdeildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah hjá Liverpool í baráttunni við Oleksandr Zinchenko hjá Manchester City í bikarleik liðanna á dögunum.
Mohamed Salah hjá Liverpool í baráttunni við Oleksandr Zinchenko hjá Manchester City í bikarleik liðanna á dögunum. Getty/Visionhaus

Það verður nóg af leikjum hjá Liverpool þegar enska úrvalsdeildin klárast um miðjan næsta mánuð.

Liverpool þarf að spila tvisvar sinnum í síðustu viku ensku úrvalsdeildarinnar og leikur alls þrjá leiki í vikunni að meðtöldum bikarúrslitaleiknum.

Enska úrvalsdeildin hefur nú raðað upp leiktíma og leikdögum fyrir lokaumferðir ensku úrvalsdeildarinnar í samráði við ensku sjónvarpsstöðvarnar.

Lokaleikur Liverpool verður á móti Wolves á Anfield 22. maí en liðið mun ferðast til Southampton fimm dögum fyrr. Sá leikur var færður vegna bikarúrslitaleiksins á móti Chelsea sem er helgina á undan. Liverpool spilar því þrjá leiki frá 14. maí til 22. maí.

Á sama tíma spilar Manchester City við West Ham á London leikvanginum 15. maí en lokaleikur City er síðan á móti Aston Villa á heimavelli sjö dögum síðar.

City átti leik inni frá því í apríl en sá leikur á móti Wolves hefur verið settur á 11. maí. Það þýðir að City fær þriggja leikja viku í næstsíðustu vikunni, spilar þrjá leiki frá 8. til 15. maí.

Manchester City er með eins stigs forskot á Liverpool þegar fimm leikir eru eftir af ensku úrvalsdeildinni. Það er því mikil spenna og hvert tapað stig getur verið örlagaríkt fyrir bæði liðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×