Enski boltinn

Rangnick reynir að tala upp Man. United: Enn þá spennandi félag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ralf Rangnick talar við leikmenn sína á æfingu með Manchester United.
Ralf Rangnick talar við leikmenn sína á æfingu með Manchester United. Getty/Ash Donelon

Ralf Rangnick, fráfarandi knattspyrnustjóri Manchester United, mun starfa áfram hjá félaginu þó að það komi inn nýr knattspyrnustjóri. Það hefur lítið gengið í stuttri stjóratíð Rangnick á Old Trafford en hann reynir að tala liðið upp í nýju viðtali.

Rangnick hefur augljóslega smá áhyggjur af því að illa gæti gengið hjá Manchester United að ná í öfluga leikmenn í sumar af því að liðið verður að öllum líkindum ekki með í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

United er núna sex stigum frá Meistaradeildarsæti eftir skelli á móti bæði Arsenal og Liverpool í síðustu viku. Það eru bara fjórir leikir eftir og því þarf afar mikið að gerast svo að United verði með í Meistaradeildinni tímabilið 2022-23.

Fyrsta tímabil Erik ten Hag verður því væntanlega uppfullt af fimmtudagsleikjum í miðri viku en ekki leikjum á þriðjudögum og miðvikudögum.

„Það væri betra ef við spiluðu í Meistaradeildinni á næsta tímabili en þetta hefur einnig áhrif á fleiri félög. Þetta er ekki bara vandamál hjá Manchester United,“ sagði Ralf Rangnick á blaðamannafundi Manchester United í gær. ESPN segir frá.

„Við sýndum með nýja samningnum við Bruno [Fernandes] að þetta er enn þá spennandi félag með nýjan knattspyrnustjóra og nýja nálgun,“ sagði Rangnick.

„Þetta er ennþá mjög áhugaverður klúbbur og ég hlakka til að hjálpa Erik og öllum hjá félaginu að ná því besta úr liðinu og breyta allri nálgun okkar á næstu leiktíð svo að Manchester United geti orðið toppklúbbur,“ sagði Rangnick.

Manchester United hefur aðeins unnið fjóra af síðustu fimmtán leikjum sínum og næsti leikur er á móti Chelsea á Old Trafford í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×