Fótbolti

Ráku þjálfarann sem fékk Arnór en vildi ekki nýta hann

Sindri Sverrisson skrifar
Arnór Sigurðsson lék með landsliðinu gegn Spáni og Finnlandi í lok síðasta mánaðar en hefur annars ekki spilað margar mínútur á þessu ári.
Arnór Sigurðsson lék með landsliðinu gegn Spáni og Finnlandi í lok síðasta mánaðar en hefur annars ekki spilað margar mínútur á þessu ári. Getty/Juan Manuel Serrano Arce

Ítalska knattspyrnufélagið Venezia rak í dag þjálfarann Paolo Zanetti eftir átta tapleiki í röð. Hann skilur við liðið á botni A-deildarinnar þegar fimm leikir eru eftir.

Fyrir tímabilið fékk Zanetti landsliðsmanninn Arnór Sigurðsson til Feneyja að láni frá CSKA Moskvu en Arnór hefur hins vegar sáralítið spilað á Ítalíu. 

Samkvæmt Soccerway eru deildarleikirnir aðeins níu hjá Arnóri í allan vetur, allir sem varamaður, og mínúturnar samtals 173 eða sem samsvarar minna en tveimur heilum leikjum.

Arnór hefur því lítið getað gert til að breyta skelfilegu gengi Venezia sem eins og fyrr segir er komið á botn ítölsku deildarinnar. Þar er liðið með 22 stig, sex stigum frá næsta örugga sæti en með leik til góða.

Næsti leikur Venezia er útileikur gegn stórliði Juventus á sunnudaginn. Í síðustu leikjum tímabilsins mun Andrea Soncin, þjálfari ungmennaliðs Venezia, stýra liðinu. 

Jakob Franz Pálsson, Hilmir Rafn Mikaelsson og Kristófer Jónsson eru leikmenn ungmennaliðs Venezia og á dögunum kom Fylkismaðurinn Theodór Ingi Óskarsson til félagsins til reynslu.

Zanetti tók við Venezia árið 2020 og stýrði liðinu upp í A-deild í fyrsta sinn í 19 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×