Erlent

Kjör­sókn ekki minni síðan 1969

Atli Ísleifsson skrifar
Emmanuel Macron er fyrsti forseti Frakklands til að ná endurkjöri í heil tuttugu ár.
Emmanuel Macron er fyrsti forseti Frakklands til að ná endurkjöri í heil tuttugu ár. AP

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hét því í sigurræðu sinni við Eiffelturninn í París í gærkvöldi að sameina Frakkland að nýju og sýna fram á að hann sé forseti allra Frakka.

Macron vann sannfærandi sigur í seinni umferð forsetakosninganna í gær og fékk tæp 59 prósent atkvæða á meðan mótframbjóðandi hans, Marine Le Pen, fékk tæp 42 prósent.

Árangur Le Pen, sem telst lengst til hægri á pólitíska litrófinu í Frakklandi, er þó betri en nokkru sinni áður fyrir slíkt framboð. Með sigri sínum í gær varð Macron fyrsti sitjandi forsetinn til að ná endurkjöri í um tuttugu ár.

Macron segir að nú verði að finna leiðir til að sætta þá Frakka sem fundu sig knúna til að kjósa hægriöfgamann til valda. Það verði hans helsta verkefni næstu árin.

Hægri öfgamaðurinn Eric Zemmour, sem hlaut sjö prósent atkvæða í fyrri umferð kosninganna, sagði í gærkvöldi að Le Pen hafi mistekist ætlunarverkið, alveg eins og föður hennar á undan henni. „Þetta er í áttunda sinn sem nafnið Le Pen hefur orðið fyrir tapi,“ sagði Zemmour. Marine Le Pen tók við formennsku í Þjóðfylkingunni árið 2011.

72 prósent

Alls greiddu þrettán milljónir franskra kjósenda atkvæði með Le Pen sem hét því meðal annars að lækka skatta, banna höfuðslæður múslima á opinberum stöðum og að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hertar reglur fyrir innflytjendur.

Kjörsókn í gær var tæp 72 prósent og hefur ekki verið minni í síðari umferð franskra forsetakosninga síðan 1969 þegar Georges Pompidou hafði betur gegn Alain Poher. Rúmlega þrjár milljónir kjósenda skiluðu auðu eða ógiltu kjörseðilinn í gær.

Anda léttar

Í frétt BBC segir að margir Frakkar hafi verið í fríi í gær, en að þessi lága kjörsókn hafi einnig skýrst af því að margir voru á því að hvorugur frambjóðandinn hafi höfðað til sín.

Fjölmargir leiðtogar Evrópuríkja hafa óskað Macron til hamingju með sigurinn. Óttuðust margir hvað myndi gerast innan Evrópusambandsins, færi Le Pen með sigur af hólmi.

Olaf Scholz Þýskalandskanslari var fyrstur til að óska Macron til hamingju með sigurinn og benti á hið sameinlega verkefni sem framundan væri, að bregðast áfram við innrás Rússa í Úkraínu. 

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagðist einnig hlakka til áframhaldandi náins samstarfs Frakklands og Bandaríkjanna.


Tengdar fréttir

Le Pen viðurkennir ósigur

Marine Le Pen hefur viðurkennt ósigur í forsetakosningunum í Frakklandi. Nýjustu spár segja að Emmanuel Macron, sitjandi forseti og andstæðingur Le Pen í kosningunum, hafi hlotið 58,5% atkvæða.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.