Enski boltinn

„Vissum að Pickford myndi tefja allan leikinn“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Jurgen Klopp fagnar í dag.
Jurgen Klopp fagnar í dag. vísir/Getty

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, var hæstánægður með úrslit dagsins í grannaslagnum gegn Everton.

Liverpool hafði mikla yfirburði og vann leikinn með tveimur mörkum gegn engu.

Everton spilaði afar varnarsinnaðan bolta og náði að halda aftur af sóknarmönnum Liverpool fyrsta klukkutíma leiksins og Klopp viðurkennir að fyrri hálfleikurinn hafi verið slakur hjá sínu liði.

„Sem betur fer er fótboltaleikur með tvo hálfleika. Við vorum ekki að spila boltanum nógu hratt í fyrri hálfleik og vorum ekki að nýta tækifærin til að sækja hratt. Við þurftum að bæta margt í okkar leik og við gerðum það í síðari hálfleik.“

„Ég er mjög ánægður með leikinn. Þetta snýst ekki alltaf um að vera með flugeldasýningu. Þetta snýst um að ná í úrslit. Við þurftum að hafa fyrir þeim en það er gott.“

Everton tók sér góðan tíma í allar aðgerðir sínar í leiknum og Klopp grínaðist með það eftir leik en sagði það ekki hafa komið sér á óvart.

„Við bjuggumst við þessu en við vorum ekki að bregðast nógu vel við því. Þetta er erfitt. Í hvert skipti sem Jordan Pickford fékk boltann var hann með hann í fimm mínútur,“ sagði Klopp léttur.

„Við megum ekki tapa stigi og það er alltaf stutt í næsta stóra verkefni. Þannig er þetta hjá okkur núna,“ sagði Klopp um toppbaráttuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×