Pulisic tryggir Chelsea sigur á West Ham á elleftu stundu

Atli Arason skrifar
Leikmenn Chelsea fagna sigurmarki Pulisic.
Leikmenn Chelsea fagna sigurmarki Pulisic. Getty Images

Fyrri hálfleikur var þögull af mestu leyti. Ruben Loftus-Cheek fékk besta tækifæri Chelsea en Lukasz Fabianski, markvörður West Ham sá við honum. Hinu megin fékk Saïd Benrahma besta tækifæri gestanna þegar hann nýtti sér mistök Cesar Azpilicueta en Edouard Mendu, markvörður Chelsea, reddaði málunum.

Chelsea sótti meira í síðari hálfleik án þess að skora. Heimamenn fengu svo tilvalið tækifæri til að setja boltann í netið þegar Chelsea fær vítaspyrnu eftir að Craig Dawson togar Lukaku niður inn í vítateig. Dawson fær rautt spjald að launum og Jorginho tekur sér stöðu á vítapunktinum. Vítaspyrna Jorginho er hins vegar hræðileg og Fabianski á ekki í vandræðum með að grípa boltann.

Pulisic bjargaði því þó að liðsfélagi hans fengi allar slæmu fyrirsagnir blaðanna fyrir vítaklúðrið þegar Bandaríkjamaðurinn skilar fyrirgjöf Marcos Alonso í netið á 90 mínútu leiksins og tryggir Chelsea þar með 1-0 sigur og stigin þrjú.

Chelsea er þar með komið með 65 stig í 3. sætinu, sjö stigum meira en Tottenham í 5. sæti en 15 stigum minna en topplið Manchester City. Chelsea á eftir að spila sex leiki á tímabilinu. West Ham er í 7. sæti deildarinnar með 52 stig eftir 34 leiki.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira