Innlent

Leitin að Gabríel stendur enn yfir: „Við erum búin að fara út um allan bæ“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Sérsveitarmenn fóru meðal annars inn í strætisvagn við leitina í dag. 
Sérsveitarmenn fóru meðal annars inn í strætisvagn við leitina í dag.  Vísir/Vilhelm

Lögregla leitar enn að hinum tvítuga Gabríel Douane Boama, sem slapp úr haldi lögreglu í gær. Verið er að kanna allar ábendingar um hvar hann gæti verið. Sérsveitarmenn fóru meðal annars inn í strætisvagn við leitina en Gabríel reyndist ekki þar. 

Leitin að Gabríel hefur ekki enn borið árangur en hann flúði úr Héraðsdómi Reykjavíkur um sjö leytið í gær.

Kristján Helgi Þráinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir lögreglu hafa fengið þó nokkrar ábendingar um hvar hann gæti verið.

„Við erum búin að fara út um allan bæ að fylgja eftir þeim vísbendingum sem við höfum fengið,“ segir Kristján en leit stendur enn yfir.

Sérsveitin fór inn í strætisvagn við leitina

RÚV greinir frá því að sérsveitin hafi tekið ungan mann úr vagninum en hann hafi þó ekki verið handtekinn. 

Að því er kemur fram í frétt Fréttablaðsins var um að ræða sextán ára ungling sem var dökkur á hörund líkt og Gabríel.

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, staðfestir í samtali við fréttastofu að sérsveitin hafi farið inn í vagn við BSÍ um klukkan 13:20. 

Hann hafði þó ekki frekari upplýsingar um málið en hann heyrði ekki sjálfur af málinu fyrr en um fjögur leytið.

„Við eigum eftir að skoða þetta betur innanhúss,“ segir Guðmundur Heiðar.


Tengdar fréttir

Lögreglan lýsir eftir manninum sem strauk úr héraðsdómi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir eftir Gabríel Douane Boama, tuttugu ára gömlum karlmanni, sem strauk úr haldi lögreglu við Héraðsdóm Reykjavíkur í dag. Mál hans var til meðferðar þegar hann flúði en hann er hvattur til að gefa sig strax fram. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×