Erlent

„Við eigum bara daga eða klukku­tíma eftir“

Atli Ísleifsson skrifar
Úkraínski hershöfðinginn Serhiy Volyna vill að óbreyttum borgurum verði komið örugglega í burtu frá stálverksmiðjunni í Mariupol.
Úkraínski hershöfðinginn Serhiy Volyna vill að óbreyttum borgurum verði komið örugglega í burtu frá stálverksmiðjunni í Mariupol. EPA

„Við eigum bara daga eða klukkutíma eftir. Hjálpið okkur.“ Þetta sagði úkraínski herforinginn Serhiy Volyna, sem hefst nú við í stálverksmiðju í Mariupol ásamt fjölda úkraínskra hermanna og almennra borgara, í ávarpi í gærkvöldi.

Rússneski herinn hefur sett hermönnunum úrslitakosti, að leggja niður vopn fyrir klukkan 11 í dag. Talsmenn úkraínskra yfirvalda segja það ekki standa til.

Harðir bardagar hafa staðið í Mariupol allt frá upphafi innrásarinnar í lok febrúar og hafa hundruð þúsunda Úkraínumanna þurft að lifa þar án vatns og rafmagns. Rússar hafa umkringt borgina og eru síðustu úkraínsku hermennirnir nú í stálverksmiðjunni Azovtal.

Úkraínska leyniþjónustan kveðst hafa upplýsingar um að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafi ákveðið að bæla niður síðustu andspyrnuna í Mariupol, sama hvað.

Í frétt CNN segir að Volyna hafi biðlað til heimsbyggðarinnar í gærkvöldi þar sem hann bað um aðstoð. „Ég er með skilaboð til heimsins. Þetta kunna að verða mín hinstu skilaboð. Við eigum bara daga eða klukkutíma eftir. Hjálpið okkur.“

Hann sagðist vilja að óbreyttir borgarar sem hafast við í Azovtal verði fluttir á brott með þyrlum á örugg svæði. Sagðist hann vona að leiðtogar heims sammælist um að ráðist verði í slíka aðgerð.

„Við erum fullkomlega umkringd. Það eru líka um fimm hundruð særðir hermenn hérna sem fá enga aðhlynningu. Þeir rotna bókstaflega. Það eru líka almennir borgarar sem þjást eftir sprengingar,“ segir Volyna sem segir Rússa beita loftárásum og stórskotahernaði.

Hann segir Rússa á svæðinu nú vera margfalt fleiri en Úkraínumenn og að þeir hafi yfirburði þegar kemur að vopnum. „En við munum berjast til síðasta manns. Tíminn fer hins vegar að verða á þrotum.“


Tengdar fréttir

Vaktin: Rússar setja her­mönnum í Mariu­pol úr­slita­kosti

Rússneski herinn hefur sett úkraínskum hermönnum í hafnarborginni Mariupol úrslitakosti og fyrirskipað þeim að leggja niður vopn fyrir klukkan 11 í dag. Hermennirnir hafast nú við á iðnaðarsvæði í borginni, auk almennra borgara. Talsmenn úkraínskra yfirvalda segja hins vegar að áfram verði unnið að því að verja borgina frá innrásarhernum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×