Þetta sagði Þórdís Lóa í Pallborðinu á Vísi sem hófst klukkan tvö. Þar mætti hún Einari Þorsteinssyni oddvita Framsóknarflokksins í borginni og Líf Magneudóttur oddvita Vinstri grænna. Þar var til umræðu hvort núverandi meirihluti héldi áfram samstarfi héldi hann velli í kosningum, eins og útlit er fyrir núna.
Líf og Þórdís sögðust báðar líta svo á að eðlilegast væri að meirihlutinn ræddi fyrst saman áður en aðrir valkostir yrðu skoðaðir. Líf lagði þó aukna áherslu á aukið samstarf við minnihlutan.
„Sveitarstjórnir eru ekki eins og litla Alþingi þar sem er ríkisstjórn og minnihluti. Við erum fjölskipað stjórnvald og við eigum að vinna saman. Það er eitthvað sem ég myndi vilja reyna á í næstu borgarstjórn að [minnihluta]flokkar fái formannsembætti, að við séum að taka þátt í þessu saman,“ sagði Líf.
Segir kominn tíma á flokk sem ekki hafi tekið þátt í leðjuslagi í ráðhúsinu
Einar sagði þá alveg ljóst að fengi meirihlutinn áfram umboð myndi hann halda saman áfram. Hann rifjaði þó upp að það hefði ekki alltaf gengið vel.

„Þó Líf sé hér af góðum vilja að tala um að fela minnihlutanum meiri áhrif þá höfum við horft á þessi ofboðslegu átök í borgarstjórn og eiginlega bara ljóta pólitík. Það segir ákveðna sögu að Gallup mæli traust á stofnunum í samfélaginu og mæli að það séu aðeins 23 prósent borgarbúa sem treysta borgarstjórn,“ sagði Einar.
„Pólitíkin hefur verið lituð af svo mikilli hörku og svo miklum öfgum. Minnihlutinn telur sig ekki ná neinu fram, meirihlutinn keyyrir fram mjög einarða stefnu í sínum málum og svo er þetta bara stál í stál. Það er meira að segja skotið á bíl borgarstjóra á þessu kjörtímabili og varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins fordæmir það ekki,“ sagði Einar og bætti við að til þyrfti miðjuflokk sem ekki hefði tekið þátt í „leðjuslaginum í ráðhúsinu.“
Þórdís greip þá inn í og sagði það algeran misskilning að allt hafi verið í háalofti í ráðhúsinu á kjörtímabilinu.
„Það hafa orðið stórkostlegar breytingar í borginni sem gleymast. Það gekk mjög brösulega fyrstu mánuðina og við lifum enn með þær gróusögur. Það er ekki allt búið að loga í ráðhúsinu síðan 2018, það er af og frá. Það voru hins vegar mjög mikil læti til að byrja með og það er mjög leiðinlegt að sjá hvernig það mengar allt þetta góða starf.“