Fótbolti

Alfons sá eini sem spilaði alla leikina er Bodø/Glimt jafnaði met

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alfons fagnar eina Evrópumarki sínu á leiktíðinni. Það reyndist heldur betur mikilvægt.
Alfons fagnar eina Evrópumarki sínu á leiktíðinni. Það reyndist heldur betur mikilvægt. Soccrates/Getty Images

Íslenski landsliðsmaðurinn Alfons Sampsted hefur átt lygilegan tíma með Bodø/Glimt undanfarin misseri. Norsku meistararnir jöfnuðu nýverið met í Evrópu en liðið lék alls 20 leiki í Evrópu á leiktíðinni.

Alfons gekk í raðir Bodø/Glimt árið 2020 og sér eflaust ekki eftir því. Félagið hefur nú í tvígang orðið Noregsmeistari og þá náði það ótrúlegum árangri í Evrópu á leiktíðinni. 

Það var Lucas Arnold – sérfræðingur Football Radar – sem benti á þá mögnuðu staðreynd að Alfons hafi verið eini leikmaður Bodø/Glimt sem tók þátt í öllum 20 leikjum liðsins í Evrópu.

Bodø/Glimt hóf tímabilið í Meistaradeild Evrópu en féll þar úr leik gegn Legía Varsjá í fyrstu umferð undankeppninnar. Við það féll liðið niður í Sambandsdeild Evrópu og sýndu leikmenn norsku meistaranna sínar bestu hliðar þar. Þáverandi Íslandsmeistarar Vals voru fyrsta liðið til að finna hversu öflugt lið Bodø/Glimt í raun og veru er.

Margir fræknir sigrar unnust og þá helst 6-1 sigurinn á lærisveinum José Mourinho í Roma. Á endanum náðu Rómverjar fram hefndum með 4-0 sigri í 8-liða úrslitum. Var það fyrsta tap Bodø/Glimt í Evrópu í 14 leikjum.

Tapið gegn Roma þýðir að Evrópuleikir tímabilsins verða ekki fleiri og Alfons getur því ekki bætt metið. Hann er nú í útvöldum hópi fimm leikmanna sem hafa náð að spila 20 Evrópuleiki á einu og sama tímabilinu. Hinir fjórir eru þeir Gaetan Huard og Jean Luc Godon (Bordeaux, tímabilið 1995-1996) og Andreas Ulmer og Munas Dabbur (Red Bull Salzburg, tímabilið 2017-2018).

Alfons skoraði eitt mark og lagði upp þrjú í leikjunum 20. Markið var vægast sagt mikilvægt en það var sigurmarkið gegn AZ Alkmaar í framlengingu. Fagnaðarlæti Alfons og liðsfélaga hans má sjá hér að ofan í forsíðumynd fréttarinnar.

Samkvæmt Alfons er lykillinn að því að spila svona marga leikið að sofa nóg og borða vel, þá sérstaklega lax, hrísgrjón og sveppi.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×