Enski boltinn

Segir ástæðu fyrir því að ekkert lið hafi unnið fernuna: „Nánast ómögulegt“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Virgil van Dijk, varnarmaður Liverpool, segir það nánast ómögulegt að vinna fernuna.
Virgil van Dijk, varnarmaður Liverpool, segir það nánast ómögulegt að vinna fernuna. James Williamson - AMA/Getty Images

Miðvörðurinn Virgil van Dijk segir að það væri algjör draumur fyrir Liverpool að vinna sögulega fernu, en að það sé einnig nánast ómögulegt.

Liverpool fagnaði sigri í enska deildarbikarnum í febrúar og á enn góðan möguleika á að vinna FA-bikarinn, Meistaradeildina og ensku úrvalsdeildina. Liðið vann 3-2 sigur á Manchester City um helgina og komst þar með í úrslit FA-bikarsins.

„Það hefur enginn unnið fernuna og það er ásætða fyrir því,“ sagð varnarmaðurinn. „Af því að það er nánast ómögulegt.“

Liverpool situr í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar sem stendur, aðeins einu stigi á eftir toppliði Manchester City þegar sjö umferðir eru eftir. Liðið tekur á móti erkifjendum sínum, Mancester United, í kvöld og með sigri getur liðið komið sér á toppinn. Í það minnsta tímabundið.

„Allt þetta tal frá umheiminum um fernu eða þrennu gæti sett aukna pressu á okkur,“ bætti Van Dijk við. 

„Þetta er eitthvað sem alla dreymir um, að vinna allar keppnir sem þú tekur þátt í. En við sjáum hvað framtíðin ber í skauti sér.“

„Það getur allt gerst. Líka hjá hinum liðunum,“ sagði Hollendingurinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×