Enski boltinn

Klopp: FA-bikarinn er risastór keppni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jürgen Klopp er kominn með Liverpool í undanúrslit FA-bikarsins í fyrsta skipti.
Jürgen Klopp er kominn með Liverpool í undanúrslit FA-bikarsins í fyrsta skipti. Andrew Powell/Liverpool FC via Getty Images

Knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp segir að Liverpool hafi ekki spilað sinn besta leik þegar liðið heimsótti Manchester City í ensku úrvalsdeildinni síðastliðinn sunnudag. Hann segist vona að liðið sýni sínar bestu hliðar þegar liðin mætast í undanúrslitum FA-bikarsins á Wembley í dag.

„City-liðið var virkilega sterkt á sunnudaginn á meðan að við spiluðum kannski ekki okkar besta leik. Þannig að ég væri til í að sjá leik þar sem við erum upp á okkar besta,“ sagði Klopp á blaðamannafundi fyrir viðureign Liverpool og City í undanúrslitum FA-bikarsins.

„Strákarnir gerðu mikið af góðum hlutum í leiknum, en það vou nokkur atriði og ég veit að við getum spila mun betur.“

Þjóðverjinn hefur mátt þola gagnrýni seinustu ár þar sem hinir ýmsu sérfræðingar segja hann ekki taka FA-bikarinn nægilega alvarlega. Hann segist þó ákveðinn í því að bæta gengi sitt í keppninni og að mótherjar dagsins gefi honum og liðinu auka kraft til að gera allt sem þeir geta til að klára dæmið.

„FA-bikarinn er risastór keppni. Hingað til höfum við ekki einu sinni getað komist í undanúrslit þannig að þetta er frumraun okkar í undanúrslitaleik á Wembley. En betra seint en aldrei.“

Eins og áður hefur verið greint frá ganga lestar hvorki frá Liverpool né Manchester til London yfir páskana vegna viðhalds á lestarkerfinu. Klopp segist vona að stuðningsmenn liðanna komist á völlinn og að hægt verði að búa til alvöru stemningu í kringum þennan stórleik.

„Nú erum við komnir hingað og það skiptir okkur gríðarlega miklu máli. Ég vona að stuðningsmennirnir komist til London af því að ég held að lestarnar séu stopp. Og ég vona að við fáum þá stemningu sem undanúrslitaleikur á milli Liverpool og Manchester City á skilið,“ sagði Þjóðverjinn að lokum.

Undanúrslitaleikur Liverpool og Manchester City verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 klukkan 14:20, en upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 14:00.

Enska bikarkeppnin, FA Cup, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. FA Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×