Erlent

Krúttlegur refur með hundaæði aflífaður eftir að hafa bitið níu við þinghúsið

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Refurinn vakti lukku meðal Washingtonbúa í nokkra daga áður en hann var fangaður. Hann hafði þá náð að glefsa í níu manns.
Refurinn vakti lukku meðal Washingtonbúa í nokkra daga áður en hann var fangaður. Hann hafði þá náð að glefsa í níu manns. Getty/Bill Clark

Refur, sem vakið hefur mikla lukku á samfélagsmiðlum undanfarna daga, hefur verið fangaður og aflífaður eftir að í ljós kom að hann var með hundaæði og hafði bitið níu manns. Hann hafði verið á vappi við bandaríska þinghúsið í nokkra daga áður en hann var fangaður.

Refurinn var fangaður við bandaríska þinghúsið í gær og hefur verið aflífaður. Í ljós kom, við nánari skoðun, að refurinn var með hundaæði. Þetta sagði í tilkynningu frá heilbrigðiseftirliti Washington DC.

Í tölvupósti sem eftirlitið sendi út í gær kemur fram að vitað sé til níu einstaklinga sem refurinn náði að bíta undanfarna daga. Þá hafi verið nauðsynlegt að aflífa hann til að kanna hvort refurinn væri með hundaæði. Heilbrigðiseftirlitið sagði sömuleiðis að það væri búið að setja sig í samband við öll fórnarlömb refsins, sem teldust til tegundar manna. 

Yrðlingar refsins, eða tófunnar réttara sagt, fundust í morgun og voru „handteknir“ fyrir syndir móðurinnar. Heilbrigðiseftirlitið vildi ekki gefa upp hvert ætti að flytja yrðlingana eða hvort taka þyrfti þá af lífi sömuleiðis. 

Til þess að hægt sé að skera úr um hvort dýr sé með hundaæði þarf að aflífa það og taka sýni úr heila þess og senda til greiningar. Sýni úr um það bil 120 þúsund dýrum eru prófuð fyrir hundaæði á hverju ári í Bandaríkjunum og um sex prósent þeirra greinast jákvæð. 

Heilbrigðisyfirvöld segja að engir fleiri refir hafi fundist í nágrenni við bandaríska þinghúsið en vöruðu við því að refir gætu verið þar á vappi. 

Ami Bera, fulltrúardeildarþingmaður Kaliforníu, var einn þeirra sem varð fyrir barðinu á tófunni. Hann segir í viðtali við Guardian að hann hafi fundið eitthvað bíta sig í kálfann og snúið sér við haldandi að hann myndi sjá lítinn hund. Í stað þess sá hann rauða tófu. Hann segir refinn ekki hafa bitið sig svo fast að hann hafi blóðgast. 

Eins og áður segir hefur refurinn vakið mikla lukku meðal Bandaríkjamanna og margir grínast um hann á samfélagsmiðlum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×