Enski boltinn

Van Dijk með augun á „ógleymanlegu“ tímabili hjá Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Virgil van Dijk fagnar marki með Liverpool fyrr á þessu tímabili.
Virgil van Dijk fagnar marki með Liverpool fyrr á þessu tímabili. EPA-EFE/Tim Keeton

Liverpool á enn möguleika á að vinna fjóra bikara á tímabilinu og í kvöld spilar liðið fyrri leik sinn á móti Benfica í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Virgil van Dijk talaði um það fyrir leikinn að enginn ætti að taka því sem sjálfsögðum hlut hvað Liverpool væri þegar búið að afreka á þessu tímabili.

Liverpool hefur unnið enska deildabikarinn, er einu stigi á eftir toppliði Manchester City í ensku úrvalsdeildinni, komið í undanúrslit enska bikarsins og í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.

„Við viljum bara gera þetta að ógleymanlegu tímabili fyrir Liverpool,“ sagði Virgil van Dijk á blaðamannafundi fyrir leikinn við Benfica.

„Ef þú hefði boðið okkur það fyrir tímabilið að vera inn í öllum þessum keppnum á þessum tímapunkti þá hefðum við tekið því. Við eigum því bara að njóta þess að vera í þessari stöðu, fara til Lissabon og gefa allt okkar í þetta,“ sagði Van Dijk.

„Ef það verður ekki nóg þá reynum við bara aftur á næsta tímabili. Það á enginn að taka því sem sjálfsögðum hlut sem er að gerast hjá Liverpool-liðinu í dag,“ sagði Van Dijk.

Van Dijk viðurkennir að honum hafi fundist að allir hafið búist við því sama frá honum um leið og hann kom til baka eftir krossbandsslitið.

„Fyrir þetta hlé í janúar þá fór það ekkert fram hjá mér að fólk var ekki að taka það greina. Mér fannst sumir líta á mig sem sjálfsagðan hlut þótt ég væri að koma til baka eftir svona erfið meiðsli. Að allt væri bara eðlilegt og að allir bjuggust við því sama af mér,“ sagði Van Dijk.

„Eftir þetta janúarhlé þá hætti ég að pæla í þessu og það hefur kannski hjálpað. Það eru allir að skila sínu,“ sagði Van Dijk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×