Erlent

Flugu vísvitandi inn í lofthelgi Svíþjóðar með kjarnorkuvopn

Samúel Karl Ólason skrifar
Tvær orrustuþotur af gerðinni Su-24 eru sagðar hafa borið kjarnorkuvopn þegar þeim var flogið inn í lofthelgi Svíþjóðar.
Tvær orrustuþotur af gerðinni Su-24 eru sagðar hafa borið kjarnorkuvopn þegar þeim var flogið inn í lofthelgi Svíþjóðar. Getty/Sefa Karacan

Rússneskar orrustuþotur sem flogið var inn í lofthelgi Svíþjóðar í byrjun mánaðarins báru kjarnorkuvopn. Með þessu eru Rússar sagðir hafa viljað ógna Svíum en um þetta leyti var verið að tala um aukinn áhuga á NATO-aðild í Svíþjóð og Finnlandi.

Í frétt TV4 Nyheterna segir að tvær af þotunum fjórum hafi verið með kjarnorkuvopn og að þeim hafi verið vísvitandi flogið inn í lofthelgi Svíþjóðar. Þeim hafi verið flogið inn í lofthelginni austur af Gotalandi í um mínútu.

Samkvæmt TV4 var fjórum þotum flogið frá Kalingrad við Eystrasaltshafið. Tvær þeirra voru af gerðinni Sukhoi 24 og hinar tvær voru Sukhoi 27. Það voru þær fyrrnefndu sem sagðar eru hafa borið kjarnorkuvopn.

Svíþjóð er ekki í Atlantshafsbandlaginu og um þetta leyti voru að berast fregnir af því að almenningur þar og í Finnlandi væri meira hlynntur aðild að NATO. Þann 25. febrúar hótaði María Zakharova, talskona utanríkisráðuneytis Rússlands, „hernaðarlegum og pólitískum afleiðingum“ ef Svíar og Finnar myndu sækja um aðild.

Sjá einnig: Stuðningur Finna við inngöngu í NATO aukist um níu prósent frá innrás

Í samtali við TV4 vildi yfirmaður flughers Svíþjóðar ekki staðfesta að þoturnar hefðu borið kjarnorkuvopn en sagði ljóst að þeim hefði vísvitandi verið flogið inn í sænska lofthelgi.

Orrustuþoturnar tvær í bakgrunni eru sagðar hafa borið kjarnorkuvopn.Flugher Svíþjóðar

Sænska ríkisútvarpið hefur eftir Carl-Johan Edström, yfirmanni flughers Svíþjóðar, að Svíar hafi enga ástæðu til að örvænta. Ef yfirvöld teldu aukna ógn beinast að ríkinu væri varað við því. Hann neitaði að segja til um hvernig vopn orrustuþoturnar hefðu borið.

Þá segir SVT að yfirvöld í Svíþjóð hafi kallað sendiherra Rússlands á teppið í kjölfar atviksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×