Guardian hefur eftir honum að hann hafi farið til Póllands þann 15. mars og til Úkraínu degi seinna. Hann hafi tekið með sér nokkra dróna sem hann hafi notað á víglínunni við Kænugarð.
Vasquez er virkur á samfélagsmiðlum og hefur hann meðal annars sagt að hann komi sér í vígaham með því að hugsa um „mest kýlanlega andlit heims“ og er það andlit Tucker Carlsons, umdeilds þáttastjórnenda á Fox News.
Fylgjast má með nýjustu vendingum í Úkraínu í vakt Vísis.
Þá sagði Vasquez frá því í gær að hann hefði tekið þátt í um sex klukkustunda langri orrustu um þorp nærri Kænugarði. Hann segir tvo menn í sveit sinni hafa særst og einn hafa dáið.
Long day pic.twitter.com/omB3eyXDDE
— James Vasquez (@jmvasquez1974) March 25, 2022
Samkvæmt umfjöllun Politico hafa allt að tuttugu þúsund erlendir sjálfboðaliðar gengið til liðs við Úkraínumenn. Fregnir hafa borist af því að margir þeirra hafi verið með takmarkaða eða enga reynslu af átökum og hafi ekki staðið sig vel í átökum.
Yfirmenn útlendingaherdeilda Úkraínu segjast vinna hörðum höndum að því að sía þá sjálfboðaliða og öfgamenn úr hópnum.
Einn þeirra, sem ræddi við Politico, segist ekki vilja „blóðþyrsta gaura“ sem vilji bara reyna að skjóta einhvern og enga öfgamenn. Mamuka Mamulashvili er frá Georgíu og leiðir um sjö hundruð sjálfboðaliða í sinni herdeild. Margir þeirra eru einnig frá Georgíu, sem Rússar hafa einnig ráðist á.
Flestir eru þó sagðir vera frá Bandaríkjunum og Bretlandi. Það sama á við um aðra herdeild erlendra sjálfboðaliða sem stofnuð var skömmu eftir innrás Rússa. Hún er að mestu sögð skipuð mönnum frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Póllandi.
Sjálfboðaliðar eru þó sagðir koma víðsvegar að. Talsmaður nýju útlendingadeildarinn er til að mynda frá Noregi. Hann heitir Damien Magrou og starfaði sem lögmaður í Úkraínu fyrir innrásina, samkvæmt frétt Voice of America.
Georgíu-herdeildin var stofnuð árið 2014, eftir fyrstu innrás Rússa. Mamulashvili segir eina stóra breytingu hafa átt sér stað síðan þá og það séu loft- og stórskotaliðsárásir.
„Núna, þegar ég tala við þig, heyri ég umfangsmiklar árásir. Þessar árásir eru ekki bara hljóð. Þetta eru líf barna, kvenna og að mestu almennra borgara. Sprengjum rignir yfir okkur og við getum ekkert gert,“ sagði Mamulashvili við Politico.