Erlent

Boeing 737-800 flug­vélin hrapaði úr 30 þúsund feta hæð á tveimur mínútum

Atli Ísleifsson og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Vélin á vegum China Eastern Airlines. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Vélin á vegum China Eastern Airlines. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty

Flugvél með 133 manns um borð hefur hrapað í Kína. AFP segir frá þessu, en óvíst er á þessari stundu um manntjón. 

Vélin var af gerðinni Boeing 737-800 og hrapað í fjallshlíð nærri bænum Wuzhou í Teng-sýslu í héraðinu Guangxi í suðurhluta landsins, ekki langt frá landamærunum að Víetnam. Er slysið sagt hafa valdið skógareldi í fjalllendinu.

Í frétt Reuters, þar sem vísað er í kínverska fjölmiðla, var vélin, MU5735, á vegum China Eastern Airlines og á leið frá Kunming í suðuvesturhluta Kína til Guangzhou í suðausturhluta landsins. Samkvæmt síðunni Flightradar hvarf vélin af ratsjám rúmri klukkustund eftir að hafa tekið á loft í Kunming.

Samkvæmt frétt AP, sem vísar í kínversku fréttastofuna CCTV, fékk China Eastern flugvélina afhenta frá Boeing í júní 2015 og hafði hún verið í notkun hjá flugfélaginu í rétt rúm sex ár. China Eastern rekur ýmsar flugvélategundir frá Boeing, þar á meðal 737-800 flugvélina og 737-Max. 

Í myndbandi sem fréttamaðurinn Oliver Alexander deilir á Twitter, sem hann segir vera af hrapi flugvélarinnar sem náðst hafi á öryggismyndavélar, má sjá að hún hrapaði nær lóðrétt niður á jörðina. Þá vísar Alexander í gögn frá FlightRadar um að flugvélin hafi hrapað úr 29.100 feta hæð, eða um 8,8 km hæð, á aðeins rétt um tveimur og hálfri mínútu. 

Íbúar á svæðinu hafa deilt myndum og myndböndum af því sem virðist vera brak vélarinnar á samfélagsmiðlum. Svo virðist sem kviknað hafi í flugvélinni við brotlendingu en sjá má mikinn reyk stíga upp frá ætluðum brotlendingarstað. Þá virðist brak úr vélinni hafa dreifst um skógi vaxnar hlíðarnar.

Samkvæmt frétt Reuters hefur gróðureldurinn, sem kviknaði út frá flugvélinni, verið slökktur og einhverjir viðbragðsaðilar komnir á staðinn þó enn sé beðið eftir fleirum. 

Síðasta mannskæða flugslysið í Kína varð árið 2010 þegar 44 af 96 farþegum innanlandsflugvélar á vegum Henan Airlines fórust þegar flugvélin, Embraer E-190, hrapaði við lendingu á Yichun flugvelli. 

Fréttin var uppfærð klukkan 10:20.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×