Erlent

Ungt fólk streymir frá Rússlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Ungt fólk hefur verið handtekið í þúsundatali fyrir mótmæli í Rússlandi síðan innrásin hófst.
Ungt fólk hefur verið handtekið í þúsundatali fyrir mótmæli í Rússlandi síðan innrásin hófst. EPA/ANATOLY MALTSEV

Ungt fólk streymir frá Rússlandi í tuga þúsunda tali. Stór hluti þessa hóps er menntaður og hefur unnið í tæknigeira Rússlands. Mörg þeirra hafa farið til Armeníu.

Ríkisstjórn Vladimírs Pútíns hefur hert tökin nokkuð í Rússlandi. Mótmæli eru bönnuð og frjálsum fjölmiðlum hefur verið lokað í massavís. Þá hefur aðgangur að internetinu verið takmarkaður.

Hægt er að dæma fólk í allt að fimmtán ára fangelsi fyrir að mótmæla innrásinni og eru þingmenn sagðir vinna að því að gera það ólöglegt að gagnrýna opinberar stofnanir.

Ungir menn óttast líka að vera þvingaðir í herinn og látnir taka þátt í stríðinu í Úkraínu. Þá hafa refsiaðgerðir komið niður á þessu fólki því mörg þeirra störfuðu fyrir vestræn fyrirtæki í fjarvinnu. Eftir innrásina var þeim sagt upp.

Í grein New York Times segir að fyrir innrás Rússa í um þrjú til fjögur þúsund Rússar hafi verið skráðir starfandi í Armeníu. Nú eru þeir um tuttugu þúsund og embættismenn segja þúsundir til viðbótar hafa farið í gegnum landið.

Margir hafa einnig farið til og í gegnum Georgíu og Tyrkland.

Tugir þúsunda eru sagðir leita leiða til að hefja nýtt líf annars staðar en í Rússlandi.

Óttast móttökurnar

Nokkrir viðmælendur blaðamanna NYT segja að munurinn milli kynslóða í Rússlandi hafi valdið erfiðleikum. Foreldrar þeirra og ömmur og afar hafi horft á ríkissjónvarpsstöðvar Rússlands og trúað því sem þeim væri sagt þar. Það leiddi til rifrilda og leiðinda.

Þau óttast líka viðmótið sem þau munu fá annars staðar og hvort Rússar séu hataðir um heiminn allan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×