Bakvörðurinn Adam Örn er fæddur 1995 og alinn upp hjá Blikum. Hann hefur undanfarin átta ár spilað sem atvinnumaður með NEC Nijmegen í Hollandi, Nordsjælland í Danmörku, Álasundi og Tromsø í Noregi ásamt Górnik Zabrze í Póllandi.
Hann er nú snúinn aftur í raðir Breiðabliks og á að hjálpa liðinu í titilbaráttunni í Bestu-deildinni í sumar. Eftir að hafa rétt misst af Íslandsmeistaratitlinum síðasta sumar stefna Blikar á að landa þeim stóra í sumar.
Liðið er komið með stóran og breiðan leikmannahóp en var frekar þunnskipað þegar kom að bakvörðum, það er þangað til núna.
Adam Örn á að baki 43 yngri landsleiki fyrir Íslands hönd og einn A-landsleik. Sá kom gegn Mexíkó árið 2017. Þá á hann að baki einn leik fyrir meistaraflokk Breiðabliks en sá kom fyrir sléttum áratug síðan.