Íslenski boltinn

Þungavigtin: Elfar vill losna frá Breiðabliki

Sindri Sverrisson skrifar
Elfar Freyr Helgason lék ekkert með Breiðabliki í fyrra vegna meiðsla en vill ólmur spila í sumar.
Elfar Freyr Helgason lék ekkert með Breiðabliki í fyrra vegna meiðsla en vill ólmur spila í sumar. vísir/bára

Miðvörðurinn öflugi Elfar Freyr Helgason vill komast að láni í burtu frá Breiðabliki í sumar með það í huga að fá stærra hlutverk en honum virðist ætlað hjá Blikum.

Þetta kom fram í nýjasta þætti Þungavigtarinnar en hægt er að hlusta á þáttinn á tal.is/vigtin eða í Bylgju-appinu.

Elfar, sem er 32 ára og fyrrverandi atvinnumaður, gat ekkert spilað með Breiðabliki á síðustu leiktíð vegna meiðsla.

Nú er Elfar hins vegar heill heilsu en Blikar, sem meðal annars hafa bætt varnarmanninum Mikkel Qvist við sig frá KA í vetur, hafa ekki nýtt krafta hans að undanförnu.

„Hann vill fara á lán. Hann er ekki búinn að vera í hóp í síðustu tveimur leikjum í deildabikar. Ef að hann fer að láni þá er bara spurning hversu gott lið hann getur farið í. Heill heilsu er hann alltaf á topp tíu yfir hafsenta í þessari deild,“ sagði Kristján Óli Sigurðsson í Þungavigtinni.

Klippa: Þungavigtin - Elfar vill fara frá Blikum

Mörg félög gætu verið áhugasöm

Aðspurður hvaða lið væru líkleg til að sækjast eftir því að fá Elfar svaraði Kristján:

„Það vantar fullt af liðum hafsent; FH, Fram, KA…“

Mikael Nikulásson bætti KR á listann en Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, hefur talað um að félagið þurfi að sækja sér tvo leikmenn til viðbótar.

„Ég myndi hugsa að hann sé að hugsa um hafsent í aðra stöðuna, og ég tæki Elfar Frey í hvelli,“ sagði Mikael.

„Svo er það spurningin; Leyfir Breiðablik honum að fara í eitt af þessum stóru liðum?“ spurði Kristján Óli.

„Á endanum er þetta leikur og þú verður að leyfa mönnum að spila. Ef hann kemst ekki í hóp hjá Breiðabliki ætlar þú þá að fara að senda hann á lán til Fram eða bara niður í 1. deild? Ég veit það ekki,“ svaraði Mikael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×