Erlent

Enn óvíst um fjölda látinna eftir árásir Rússa á leikhús og sundlaugarbyggingu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Úkraínskur hermaður fylgist grannt með.
Úkraínskur hermaður fylgist grannt með. AP/Rodrigo Abd

Enn er óvíst um afdrif um 400 Úkraínumanna eftir að Rússar gerðu árásir á leikhús og sundlaugabyggingu í Maríupól, þar sem íbúar höfðu leitað skjóls. Myndir og myndskeið sýna rústir leikhússins en upplýsingar um fjölda látinna liggja ekki fyrir.

Viðræður milli Úkraínu og Rússlands halda áfram í dag. Fulltrúar beggja ríkja hafa gefið vonir um að samkomulag geti verið í sjónmáli en Vladimir Pútín Rússlandsforseti var hins vegar enn harðorður í gær og ítrekaði nauðsyn þess að „af-nasistavæða“ Úkraínu.

Rússar urðu einnig æfir í gær þegar Joe Biden Bandaríkjaforseti kallaði Pútín „stríðsglæpamann“ og sögðu ummælin óásættanleg og ófyrirgefanleg.

Stríðsrekstur Rússa gengur hins vegar ekki jafn vel og þeir höfðu vonað og nú segja Bandaríkjamenn meira en 7 þúsund rússneska hermenn hafa fallið í átökunum í Úkraínu. Úkraínumenn segja fjöldann tvöfalt meiri.

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, kallaði Rússland „hryðjuverkaríki“ í daglegu ávarpi sínu til úkraínsku þjóðarinnar í gærkvöldi. Kallaði hann eftir frekari refsiaðgerðum gegn Rússum, þar sem ljóst væri að þeir gætu enn fjármagnað „stríðsmaskínu“ sína.

Selenskí fordæmdi umsátur Rússa um Maríupól og bar það saman við umsátrið um Leníngrad í seinni heimstyrjöldinni. Þá vísaði hann til árása innrásarhersins á leikhús borgarinnar, þar sem hundruðir höfðu leitað skjóls.

Hann biðlaði einnig aftur til rússneskra hermanna sem Rússar hefðu „kastað á bál þessa stríðs“ um að leggja niður vopna og eygja þannig von á því að lifa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×