Erlent

Bandaríkjamenn telja Kínverja nú þegar hafa ákveðið að koma Pútín til aðstoðar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Joe Biden, stýrði fundinum fyrir Bandaríkin. Kínverjar segja ekkert hæft í ásökunum Bandaríkjamanna um að þeir ætli að aðstoða Rússa.
Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Joe Biden, stýrði fundinum fyrir Bandaríkin. Kínverjar segja ekkert hæft í ásökunum Bandaríkjamanna um að þeir ætli að aðstoða Rússa. AP/Manuel Balce Ceneta

Bandaríkjamenn óttast að Kínverjar séu nú þegar búnir að ákveða að koma Rússum til bjargar efnahags- og fjárhagslega og séu að íhuga að sjá þeim fyrir vopnum, meðal annars vopnuðum drónum.

Frá þessu er greint í erlendum miðlum en fulltrúar ríkjanna tveggja áttu maraþon-fund í Róm í gær.

Fundurinn, sem var skipulagður fyrir innrás Rússa í Úkraínu, stóð í sjö tíma og á honum ítrekuðu Bandaríkjamenn þá afstöðu sína að aðstoð við Rússa yrði ekki vel tekið og svarað með afdráttarlausum hætti.

Yang Jiechi, fulltrúi stjórnvalda í Kína.AP/Frederic J. Brown

Heimildarmenn ítreka að ekki hafi verið um samningafund að ræða, heldur hafi hann snúist um að skýra afstöðu ríkjanna og halda boðleiðum opnum. Bandaríkin geri nú ráð fyrir að fulltrúar Kína snúi heim og beri stjórnvöldum þau skilaboð sem lögð voru upp á fundinum.

Guardian hefur eftir heimildarmanni að það hafi komið skýrt fram á fundinum að Kínverjar hefðu þegar ákveðið að veita Rússum efnahags- og fjárhagslega aðstoð. Spurningin sé hins vegar hvort þau gangi lengra og sjái þeim fyrir vopnum.

Bandarískir ráðamenn eru sagðir eiga erfitt með að sjá fyrir sér hvernig koma megi í veg fyrir nánara samstarfs Rússa og Kínverja, þar sem Xi Jinping, forseti Kína, sé mjög áfram um að eiga vin í Vladimir Pútín Rússlandsforseta.

Leiðtogarnir tveir hafi fundið sameiginlegan óvin í Bandaríkjamönnum og séu báðir staðráðnir í því að koma Bandaríkjunum úr þeirri yfirburðastöðu sem þau hafa í heiminum.

Ef Kínverjar láta sannarlega af því verða að sjá Rússum fyrir vopnum verður það þvert á spár margra sérfræðinga, sem segja Kína betur borgið með því að halda sig á hliðarlínunni og sýna góða ráðsmennsku. Það sé Kínverjum ekki í hag að taka afstöðu með Pútín á þeirri vegferð sem hann er kominn í og verða kenndir við þann hrylling sem nú á sér stað í Úkraínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×