Erlent

Efast um að NATO myndi blanda sér í stríðið þó Rússar notuðu efna­vopn

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Baldur Þórhallsson segir árásina skammt frá landamærum Póllands ekki hafa komið á óvart.
Baldur Þórhallsson segir árásina skammt frá landamærum Póllands ekki hafa komið á óvart. Vísir/Vilhelm

Prófessor í stjórnmálafræði efast um að NATO myndi blanda sér í stríðið í Úkraínu ef Rússar myndu beita þar efnavopnum. Það þyrfti meira til að NATO færi í allsherjarstríð við Rússland. 

Minnst 35 eru látnir og 134 særðir eftir loft­á­rás rúss­neska hersins á her­stöð Úkraínu­manna skammt frá landa­mærum Pól­lands. Rússar virðast nú beina sjónum sínum að því að loka fyrir að­stoð NATO-ríkjanna til Úkraínu­manna.

Loft­á­rásin var gerð snemma í morgun en að sögn er­lendra miðla virðist þetta vera í fyrsta skipti frá inn­rás Rússa sem ráðist er á svæði svo vestar­lega í Úkraínu.

Her­stöðin er í að­eins 25 kíló­metra fjar­lægð frá landa­mærum Pól­lands, sem er eitt NATO-ríkjanna, en hún hefur í gegn um tíðina verið notuð við her­þjálfun sem ýmis NATO-ríki hafa komið að.

„Þessi árás í nótt hún þýðir stig­mögnun á­takanna sem kannski þarf ekki að koma á ó­vart. Nú eru á­tökin að færast í vestur­átt að landa­mærum Úkraínu í vestri,“ segir Baldur Þór­halls­son, prófessor í stjórn­mála­fræði við Há­skóla Ís­lands.

Munu ráðast á birgðaflutningavélar NATO-ríkja

Birgða­flutningar NATO-ríkjanna til Úkraínu­manna hafa auð­vitað komið í gegn um vestur­hlutann.

Rússar hafa gefið það út síðustu daga að þeir muni beina spjótum sínum að birgða­flutningunum og varað NATO-ríkin við því að flutninga­vélar þeirra til Úkraínu gætu verið skotnar niður.

Baldur telur ekki að þetta muni hafa á­hrif á af­stöðu NATO-ríkjanna til á­takanna.

„Svo lengi sem rúss­neski herinn heldur sig frá því að senda sprengjur yfir landa­mærin og inn í NATO-ríki þá held ég að þetta leiði ekki til stig­mögnunar á­takanna á milli annars vegar NATO og hins vegar rúss­neska hersins,“ segir Baldur

Hann segir NATO full­með­vitað um að ef það myndi fara að blanda sér með beinum hætti inn í stríðs­á­tökin myndi það hafa í för með sér alls­herjar­stríð milli Rúss­lands og NATO.

Fréttastofa fylgist grannt með gangi mála í vaktinni hér að neðan:

Eintómar hótanir í Sýrlandi

For­seti Pól­lands sagði ný­verið að ef Rússar færu að beita efna­vopnum í Úkraínu þyrfti NATO að endur­hugsa af­stöðu sína.

Baldur efast þó um að það hefði á­hrif.

„Það sýndi sig sko að NATO og Banda­ríkin sögðust ætla að bregðast við efna­vopnum í Sýr­landi. Þau sögðust ætla að bregðast við en gerðu ekkert. Ég sé ekki endi­lega að þeir muni frekar eitt­hvað bregðast við í Úkraínu,“ segir hann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×