Erlent

Telja að rúmlega átján milljón manns hafi í raun látist vegna Covid

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Teymið telur að um 120 af hverjum hundrað þúsund í heiminum hafi látist vegna Covid. 
Teymið telur að um 120 af hverjum hundrað þúsund í heiminum hafi látist vegna Covid.  Getty/Anthony Kwan

Teymi rannsakenda við Háskólann í Washington hefur komist að þeirri niðurstöðu að líklega hafi rúmlega átján milljón manns látist, þrefalt fleiri en opinberar tölur segja til um. Ísland er meðal þeirra landa sem teymið telur að sé með lægstu umfram dánartíðnina. 

Tvö ár eru nú liðin frá því að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti því yfir að sjúkdómur kórónuveirunnar sem við þekkjum í dag sem Covid-19 væri heimsfaraldur en frá upphafi hafa rúmlega 453,5 milljón manns greinst smitaðir og rúmlega sex milljónir látist, samkvæmt opinberum tölum. 

Lengi hefur þó verið sagt að þær tölur séu líklega í raun mun hærri.

Niðurstöður teymisins voru birtar í læknaritinu Lancet en að því er kemur fram í frétt BBC rannsakaði teymið umfram dánartíðni í 191 landi og landsvæði. Við rannsóknina var kannað hversu há dánartíðnin var hjá löndunum í genum faraldurinn samanborið við dánartíðni í venjulegu árferði.

Misjafnt var eftir löndum og svæðum hversu áreiðanleg útgefin dánartíðni af völdum Covid-19 var en teymið reiknar með því að um 120 hafi látist af hverjum hundrað þúsund í heiminum, eða alls 18,2 milljón manns. Sum dauðsföll hafi verið beinlínis af völdum Covid og önnur tengd Covid. 

Hæsta umfram dánartíðnin var í fátækari ríkjum í Suður-Ameríku, Evrópu og Mið-Afríku en þó var einnig há umfram dánartíðni í löndum á borð við Bretland og Ítalíu. 

Löndin sem voru með mestu umfram dánartíðnina að mati teymisins voru Bólivía, Búlgaría, Eswatini, Norður-Makedónía og Lesótó. Ísland er þó á meðal þeirra landa sem teymið taldi að væri með lægstu umfram dánartíðnina, ásamt Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Singapúr og Taívan.

Rannsakendurnir taka þó fram að erfitt sé að draga nákvæmar ályktanir um hversu mörg umfram dauðsföll séu beinlínís af völdum Covid, frekar en óbein afleiðing faraldursins, en frekari rannsóknir eigi eftir að leiða það í ljós. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×