Erlent

Tuttugu nú látnir í flóðunum í Ástralíu

Atli Ísleifsson skrifar
Tugþúsundir hafa nú neyðst til að flýja heimili sín vegna flóðanna.
Tugþúsundir hafa nú neyðst til að flýja heimili sín vegna flóðanna. AP

Tveir til viðbótar hafa nú látið lífið í flóðunum sem herjað hefur á íbúa austurhluta Ástralíu síðustu vikurnar. Alls hafa tuttugu nú látið lífið vegna flóðanna.

Greint var frá því í gær að mæðgin, 67 ára kona og 34 ára sonur hennar, hafi fundist látin nærri yfirgefnum bíl sínum í flóðavatni í vesturhluta Sydney. Fór fjöldi látinna vegna flóða síðustu vikna þá upp í tuttugu.

Tugþúsundir íbúa Sydney hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín vegna ástandsins, meðal annars af ótta við að að stíflan Manly Dam norður af Sydney muni bresta og valda mikilli flóðbylgju. Síðasta hálfa mánuðinn hefur ástandið verið verst í Nýja Suður-Wales og í Queensland.

Í Nýja Suður-Wales hafa fjörutíu þúsund flúið flóðin og tuttugu þúsund manns eru í viðbragðsstöðu ef ástandið versnar.

Veðurfræðingar segja að flóðin megi ekki síst rekja til loftslagsbreytinga og La Nina veðurfyrirbrigðisins sem myndast þegar sterkir vindar ýta heitum yfirborðssjónum í Kyrrahafi frá Suður-Ameríku og í áttina að Indónesíu. Í stað heita sjávarins kemur kaldari sjór og þá aukast líkurnar á regni, fellibyljum og kaldari lofthita.

Reiknað er með að úrhellið muni halda áfram næstu daga og þannig er reiknað með allt að 120 millimetra úrkomu í Sydney næsta sólarhringinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×