Enski boltinn

Jóhann lýsir verstu vikum ferilsins

Sindri Sverrisson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson hefur ekki spilað með Burnley síðan í janúar. Hann er illa meiddur í kálfa og hleður nú batteríin í sólinni.
Jóhann Berg Guðmundsson hefur ekki spilað með Burnley síðan í janúar. Hann er illa meiddur í kálfa og hleður nú batteríin í sólinni. Getty og @johannberggudmundsson

Árið 2022 hefur verið hálfgerð martröð hingað til fyrir Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsmann í knattspyrnu, sem ekki spilar með Burnley á næstunni og missir væntanlega af landsleikjunum í mars.

„Síðustu vikur hafa verið erfiðustu vikur ferilsins hjá mér, bæði líkamlega og andlega,“ segir Jóhann í færslu á Instagram.

Jóhann lék síðast með Burnley 23. janúar, gegn Arsenal. Nokkru dögum síðar var hann sendur í flýti á sjúkrahús þar sem hann varð að gangast undir aðgerð vegna botnlangabólgu og í kjölfarið á því meiddist hann illa í kálfa.

„Þetta hófst allt á botnlangabólgu og meðfylgjandi bráðaaðgerð. Þegar að ég hafði jafnað mig af því myndaðist stór rifa í kálfa á fyrstu æfingu minni eftir þetta. Ég átti afskaplega erfitt með að sætta mig við þessar hrikalegu fréttir. Það er rosalega erfitt að geta ekki hjálpað liðinu mínu og gert það sem ég elska,“ segir Jóhann og birtir mynd af sér á sólríkum stað:

„Ég ákvað að fara í burtu og hlaða batteríin og er staðráðinn í að snúa aftur sterkari er nokkru sinni fyrr,“ segir Jóhann.

Næstu leikir íslenska landsliðsins eru á Spáni eftir mánuð og allt útlit fyrir að Jóhann verði ekki með þar. Ísland mætir þá Finnlandi og Spáni í vináttulandsleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×