Frakkar áttu frumkvæðið að leiðtogafundinum. Hvíta húsið þegar sagt að fundurinn geti aðeins farið fram ráðist Rússar ekki inn í Úkraínu. Með fundinum er hugmyndin að reyna að leysa deiluna sem nú er uppi í Úkraínu en spennan í landinu hefur ekki verið eins mikil síðan á dögum Kalda stríðsins.
Til stendur að ræða nánari útlistun fundarins þegar utanríkisráðherra Bandaríkjanna Antony Blinken og Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands hittast á fimmtudag. Hins vegar kom fram hjá talsmanni Rússlandsforseta í hádeginu að ótímabært væri að tilkynna leiðtogafund milli forsetanna. Þó væri ekki útilokað að forsetarnir hittist í eigin persónu en ekkert sé þó frágengið í þeim efnum.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir að fari slíkur fundur fram gefi það tilefni til bjartsýni.
„Það er jákvætt að forsetar Bandaríkjanna og Rússlands ákveði að funda. Við höfum lagt áherslu á að samtalið og diplómatískar leiðir séu ennþá möguleiki,“ segir Þórdís.
Hún segir hins vegar að ástandið sé þegar orðið grafalvarlegt í Úkraínu.
„Það er mjög mikil spenna á svæðinu og ekki hægt að segja að annað hvort gerist ekkert eða það verði innrás. Staðan á svæðinu hefur þegar versnað það mikið og er mun alvarlegri en hún var áður og bitnar verst á almennum borgurum. Við þurfum að stíga skref til baka ef við ætlum að komast í þá stöðu sem var áður en þetta hófst nú,“ segir Þórdís.
Þórdís er stödd í Lundúnum þar sem fundur verður haldinn í sameiginlegri viðbragðssveit Norðurlanda, Eystrasaltsríkja og Hollands undir forystu Bretlands í öryggis- og varnarmálum.
„Við erum að funda seinni partinn í dag og morgun. Þetta er fundur sem átti að vera í apríl en var flýtt vegna stöðunnar,“ segir Þórdís að lokum.