Erlent

Földu hernaðar­leyndar­mál í sam­loku og tyggjó­pakka og reyndu að selja

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hjónin reyndu að selja hernaðarleyndarmál sem sneru að kjarnorkukafbátum.
Hjónin reyndu að selja hernaðarleyndarmál sem sneru að kjarnorkukafbátum. Oscar Sosa/U.S. Navy via Getty Images

Bandarísk hjón hafa verið dæmd í fangelsi fyrir að hafa reynt að selja hernaðarleyndarmál um bandaríska kjarnorkukafbáta til erlends ríkis. Eiginmaðurinn faldi gagnakort sem geymdi trúnaðarskjöl meðal annars inn í samloku og tyggjópakka.

Hinn 42 ára Jonathan Toebbe, sérfræðingur í kjarnorkuknúnum kafbátum hjá bandaríska sjóhernum lýsti sig sekan fyrr í vikunni og mun hann þurfa að sitja í fangelsi næstu tólf til sautján árin. Eiginkona hans, hin 46 ára gamla Diane Tobbe, játaði að hafa aðstoðað hann við að skila gögnunum af sér og mun hún þurfa að þola þriggja ára fangelsisdóm.

Toebbe var sakaður um að hafa reynt að selja erlendu ríki hernaðarleyndarmál um kjarnorkuknúna kafbáta Bandaríkjahers. Hann átti í samskiptum við mann sem Toebbe taldi vera útsendara erlends ríkis, en var í raun útsendari FBI, Bandarísku alríkislögreglunnar.

Rannsakendur komust að því að Toebbe hafði árum saman safnað upplýsingum saman, alltaf í smáum skömmtum í einu, og smyglað þeim úr vinunni.

Eiginkona hans var sakfelld fyrir að hafa aðstoðað hann við að koma gögnum frá sér. Var hún á varðbergi er eiginmaðurinn skildi gögnin eftir á fyrirfram ákveðnum stöðum svo útsendarinn, sem var í raun útsendari FBI, gæti nálgast þau.

Á vef CBS í Bandaríkjunum kemur fram að þau hafi komið gögnunum fyrir á gagnakorti og sett það inn í hnetusmjörssamloku og tyggjópakka og skilið þau eftir á vissum stöðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×