Erlent

Leiðtogar aðskilnaðarsinna skipa borgurum að flýja til Rússlands

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Donetsk í Úkraínu. Verið er að flytja íbúa til Rússlands.
Frá Donetsk í Úkraínu. Verið er að flytja íbúa til Rússlands. AP/Alexei Alexandrov

Denisi Pushilin, leiðtogi aðskilnaðarsinna Donetsk í austurhluta Úkraínu, tilkynnti í dag að almennir borgarar héraðsins yrðu fluttir til Rússlands. Leiðtogar Lunhansk, hins héraðsins þar sem aðskilnaðarsinnar sem studdir eru af Rússum stjórna, hafa einnig tilkynnt að flytja eigi íbúa á brott.

Í ávarpi sagði Pushilin að yfirvöld í Rússlandi hefðu samþykkt að taka á móti borgurunum.

Hann sagði að konur, börn og eldri borgarar yrðu að fara á brott og samkvæmt samkomulagi við ráðamenn í Rússlandi væru híbýli fyrir fólkið tilbúin í Rostov-héraði í Rússlandi, samkvæmt frétt Washington Post.

Samkvæmt fréttaveitunni RIA Nostovi hefur Vladimír Pútín, forseti Rússlands, skipað ríkisstjórn sinni að tryggja fólkinu skjól og að hverjum flóttamanni verði veittar tíu þúsund rúblur.

Íbúar á svæðinu hafa fengið SMS um að þeir eigi að flýja og eiga rútur að flytja fólk til Rússlands. Langar biðraðir hafa myndast við bensínstöðvar á svæðinu og sömuleiðis við landamærastöðvar á landamærum Rússlands.

Sírenur hafa hljómað í Donetsk í dag en aðskilnaðarsinnarnir segjast bæði hafa komið í veg fyrir árás úkraínska hersins á efnaverksmiðju og að von sé á stórsókn hersins. Úkraínumenn og blaðamenn í Úkraínu segja engin ummerki um sókn hersins og yfirlýsingum um meinta árás hefur verið mætt af mikilli tortryggni.

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sendi í dag út yfirlýsingu um að Úkraínumenn hefðu hvort reynt að gera árás á Úkraínu né ætli sér að ráðast gegn aðskilnaðarsinnum.

Rússar hafa á undanförnum vikum komið á annað hundrað þúsund hermönnum fyrir við landamæri Úkraínu. Óttast er að Rússar ætli sér að gera aðra innrás í landið og hafa vestrænir ráðamenn sagt að mögulega reyni Rússar að skapa átyllu til innrásar. Það gæti meðal annars verið með því að falsa árás Úkraínuhers á aðskilnaðarsinna.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, sagði í gær að Rússar virtust vera að undirbúa innrás og að þrátt fyrir yfirlýsingar um fækkun hermanna færi þeim fjölgandi. Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna sló á svipaða strengi og benti til að mynda á að rússneski herinn væri að safna blóði.

Sjá einnig: Segja Rússa nær því að gera innrás í Úkraínu

Rússar gerðu innrás í Úkraínu árið 2014 og innlimuðu Krímskaga af landinu. Þá hafa þeir einnig staðið þétt við bakið á aðskilnaðarsinnum sem lögðu undir sig stór svæði í Úkraínu sama ár. Það hafa þeir gert með því að útvega aðskilnaðarsinnum vopn og rússneskir hermenn hafa sömuleiðis barist með þeim.

Yfirvöld í Kænugarði segja um fimmtán þúsund manns hafa fallið í átökunum.

Ráðamenn í Rússlandi hafa á undanförnum dögum sakað ríkisstjórn Úkraínu um þjóðarmorð gegn aðskilnaðarsinnum í austurhluta landsins og varað við því að herinn ætli sér að ráðast gegn aðskilnaðarsinnunum.


Tengdar fréttir

Rússar gagn­rýna stuðnings­yfir­lýsingu Guðna for­seta

Rúss­neska sendi­ráðið á Ís­landi segist hafa orðið fyrir von­brigðum með stuðnings­yfir­lýsingu for­seta Ís­lands. For­seti lýsti yfir stuðningi við Úkraínu í gær og bað Rússa um að draga úr við­búnaði við landa­mæri landsins.

Saka hvora aðra um að brjóta gegn vopnahléi

Stjórnarher Úkraínu segir aðskilnaðarsinna í austurhluta landsins hafa skotið sprengjum að leikskóla. Aðskilnaðarsinnarnir, sem eru studdir af Rússlandi, segja stjórnarherinn hafa skotið sprengjum á þá fyrst.

Sjá ekki að Rússar fækki hermönnum

Forsvarsmenn Atlantshafsbandalagsins segjast ekki sjá ummerki þess að Rússar séu að draga úr viðbúnaði við landamæri Úkraínu. Ráðamenn í Rússlandi segjast vera að fækka hermönnum á svæðinu en þeim yfirlýsingum hefur verið tekið með tortryggni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×