Innlent

Rússar gagn­rýna stuðnings­yfir­lýsingu Guðna for­seta

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Guðni Th. forseti Íslands bað Rússa að virða sjálfstæði Úkraínu í gær.
Guðni Th. forseti Íslands bað Rússa að virða sjálfstæði Úkraínu í gær. Vísir/Vilhelm

Rúss­neska sendi­ráðið á Ís­landi segist hafa orðið fyrir von­brigðum með stuðnings­yfir­lýsingu for­seta Ís­lands. For­seti lýsti yfir stuðningi við Úkraínu í gær og bað Rússa um að draga úr við­búnaði við landa­mæri landsins.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands sendi Vólódómír Selenskí forseta Úkraínu kveðju á Twitter-síðu sinni í gær. Þar minnti hann á að Íslendingar væru aðilar að Atlantshafsbandalaginu og kvað þjóðina standa með ríkjum bandalagsins, sem hafa ítrekað beðið Rússa um að draga úr hernaðaruppbyggingu við landamæri Úkraínu.

Úkraínuforseti þakkaði Guðna fyrir stuðninginn örfáum klukkustundum síðar. Hann kvað sterka stöðu Úkraínu og samheldni ríkja vera lykilinn að friði og öryggi þjóða í Evrópu.

Þessu virðast Rússar ekki hafa tekið vel ef marka má færslu á Facebook-síðu rússneska sendiráðsins á Íslandi. Þar lýsa þeir yfir vonbrigðum með Guðna og sögðu að um væri að ræða einhliða og hlutdræga nálgun á málefninu. 

Rússar segja að Vesturveldin hafi ekki fylgt samþykktum Minsk-sáttmálans, sem undirritaður var af Sameinuðu þjóðunum árið 2015, sem miðaði að því að leysa ágreining á landamærum Úkraínu og með því aukið spennu. Vesturveldin hafi ítrekað sent herþotur og vopn til landsins á þessu ári.

Mikil spenna hefur verið á landamærum Rússlands og Úkraínu síðustu vikur. Þeir fyrrnefndu eru taldir hafa komið fyrir um 150 þúsund hermönnum við landamæri Úkraínu auk vopna og hernaðargagna. Bandaríkjaforseti hefur lýst því yfir að líklegt sé að Rússar hyggist ráðast inn í Úkraínu, jafnvel á næstu dögum, en Rússar hafa vísað ásökunum á bug.

Ríkisstjórn Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, hefur krafist þess að Úkraínu verði meinaður aðgangur að Atlantshafsbandalaginu um alla framtíð og að NATO fjarlægi alla hermenn og vopn úr Austur-Evrópu. Þeim kröfum hefur NATO hins vegar hafnað á þeim grundvelli að þær fari gegn grunngildum NATO um sjálfsákvörðunarrétt ríkja.


Tengdar fréttir

Saka hvora aðra um að brjóta gegn vopnahléi

Stjórnarher Úkraínu segir aðskilnaðarsinna í austurhluta landsins hafa skotið sprengjum að leikskóla. Aðskilnaðarsinnarnir, sem eru studdir af Rússlandi, segja stjórnarherinn hafa skotið sprengjum á þá fyrst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×