Unnið hefur verið að því í allan dag að setja upp búnað og aðstöðu við Ölfusvatnsvík í Þingvallavatni. Yfir fimmtíu manns munu taka þátt í aðgerðinni sem hefst klukkan níu í fyrramáli.

Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að strax klukkan níu munu fara fram þær prófanir sem ekki er hægt að gera fyrirfram. Í framhaldinu hefjast aðgerðir á því að bjarga líkum af botni vatnsins. Takist að ná þeim upp verða þau flutt beint til Reykjavíkur. Þá kemur fram í tilkynningunni að þar mun réttarlæknir framkvæma líkskoðun og í framhaldi af því verður aðstandendum gefinn kostur á að eiga stund, hver með sínu fólki.
Þá er ekki reiknað með að farið verði í aðgerðir til að hífa flugvélina upp á morgun en mögulega verður kafað að flakinu og byrjað að undirbúa. Ef allt gengur upp er þess vænst að flugvélin verði hífð upp seinni part föstudags.

Um er að ræða flókna og umfangsmikla aðgerð en lík farþeganna sem fórust um borð í flugvélinni TF-ABB eru nú á minnst 35 metra dýpi og flugvélarflakið á tæplega 50 metra dýpi.
„Þetta er mjög umfangsmikil og krefjandi aðgerð. Síðan á laugardaginn þá hafa kafarar frá Landhelgisgæslunni, lögreglunni og slökkviliðinu unnið sleitulaust að undirbúningi þessa verkefnis. Það verða átta kafarar frá Landhelgisgæslu, sex frá lögreglu og átta frá slökkviliðinu. Um tuttugu kafarar sem koma til með að taka þátt í þessari aðgerð,“ segir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar.