Innlent

Friðrik Ómar tekinn við af Loga

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Friðrik Ómar mun stýra Síðdegisþættinum á K100 með Sigurði Gunnarssyni í stað Loga Bergmanns.
Friðrik Ómar mun stýra Síðdegisþættinum á K100 með Sigurði Gunnarssyni í stað Loga Bergmanns. Vísir/Samsett

Tónlistarmaðurinn Friðrik Ómar Hjörleifsson er tekinn við af Loga Bergmanni Eiðssyni, fjölmiðlamanni, í Síðdegisþættinum á útvarpsstöðinni K100. 

Logi Bergmann tilkynnti 6. janúar síðastliðinn að hann væri farinn í frí. Það var sama dag og fjórir aðrir menn tilkynntu að þeir væru farnir í leyfi eða hættir störfum eftir að þeir voru bendlaðir við ásakanir Vítalíu Lazarevu um að hafa beitt hana kynferðisofbeldi. 

Hver maðurinn af fætur öðrum hafði sagt af sér eða farið í leyfi þennan dag og í upphafi Síðdegisþáttarins á K100 tilkynnti Logi að hann hyggðist fara í frí. 

„Ég hef verið betri,“ sagði Logi þegar Sigurður Gunnarson, sem hefur stjórnað þættinum með honum, spurði hvernig honum liði.

„En við ætlum að gera hérna útvarpsþátt. Ég hendi einum þætti í loftið núna og svo fer ég kannski í smá frí og við sjáum bara til hvað gerist.“

Logi yfirgaf stúdíóið þegar þátturinn var hálfnaður og um kvöldið lýsti hann því yfir að hann væri saklaus af þeim ásökunum sem bornar hafi verið á hann um kynferðislegt ofbeldi í garð ungrar konu. Hann viðurkenndi þó að hafa farið yfir mörk í einkalífi fólks með því að hafa farið inn í herbergi sem hann átti ekki að fara inn í.

Friðrik Ómar hefur nú tekið við keflinu af Loga, en það tilkynnti hann á Instagram í dag. Þar segist hann munu stjórna Síðdegisþættinum með Sigurði í febrúar. 

Logi Bergmann er þó enn starfsmaður Árvakurs að sögn Magnúsar Kristjánssonar, útvarpsstjóra K100. Logi sé enn í fríi og ekkert hafi verið ákveðið um hvenær hann mæti aftur til starfa. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×