Erlent

Segir „erfitt að réttlæta“ samkvæmin og að leiðtogar hafi brugðist

Samúel Karl Ólason skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. EPA/Neil Hall

Sue Gray, sem hefur haldið utan um rannsókn á tíðum samkvæmum að Downingstræti tíu, þar sem heimili og skrifstofa Borisar Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er til húsa, segir erfitt að réttlæta samkvæmin. Það sé sérstaklega erfitt í ljósi þeirra sóttvarnarreglna og samkomutakmarkana sem voru þá í gildi.

Samkvæmin sem um ræðir voru haldin á um tuttugu mánaða tímabili árin 2020 til 2021, þegar stífar reglur voru í gildi á Bretlandi. Gray er með sextán samkvæmi til skoðunar og lögreglan er að rannsaka tólf þeirra.

Í bráðabirgðaskýrslu sem afhent var ráðuneytinu í dag segir að ljóst sé að einhver þessarar samkvæma hefðu aldrei átt að vera haldin. Útlit sé fyrir að forsvarsmenn ráðuneytisins hafi lítið verið að huga að því sem breska þjóðin var að ganga í gegnum og segir Gray að leiðtogar hafi brugðist og sýnt af sér dómgreindarleysi, samkvæmt frétt Sky News.

Hér má sjá fréttamann Sky News hlaupa yfir niðurstöður bráðabirgðarskýrslunnar.

Eins og áður segir er um bráðabirgðaútgáfu af skýrslunni að ræða. Hún er ellefu blaðsíður og byggir á viðtölum við um sjötíu manns. Lögreglan er eins og áður segir með tólf samkvæmi til rannsóknar og því segir Gray að hún geti ekki birt ítarlegri skýrslu fyrr en rannsókn lögreglunnar er lokið.

Áhugasamir geta lesið Gray-skýrsluna hér.

Í niðurstöðuhluta skýrslunnar segir að erfitt sé að réttlæta einhver af þessum samkvæmum og að sum þeirra séu til marks um alvarleg brot á þeim viðmiðum sem búist er við að opinberir starfsmenn eigi að halda á lofti.

Sömuleiðis fari þau gegn þeim viðmiðum sem öll þjóðin átti að halda á lofti á þessum tíma.

Í skýrslunni segir enn fremur að óhófleg neysla áfengis sé ekki við hæfi á vinnustöðum og ganga þurfi úr skugga um að skýr stefna varðandi drykkju sé mótuð.


Tengdar fréttir

Bráðabirgðaútgáfa Gray-skýrslunnar komin á borð Johnson

Forsætisráðherra hefur fengið afhent afrit af bráðabirgðaniðurstöðum Sue Gray um partýhald í Downing-stræti þegar sóttvarnaaðgerðir stóðu yfir á Bretlandseyjum. Ráðherrann mun flytja yfirlýsingu um skýrsluna í þinginu seinna í dag.

Enn bætist á vandræði Borisar

Vandræði Borisar Johnson, forsætisráðherra Bretlands, virðast engan enda ætla að taka. Ný-opinberaðir tölvupóstar sína að hann heimilaði brottflutning gæludýra frá Afganistan í fyrra persónulega, sem forsætisráðherrann hafði áður sagt að væri „þvættingur“.

Lögreglan rannsakar Borisar-boðin

Lögreglan í London hefur hafið rannsókn á samkvæmum sem haldin voru í Downingstræti tíu á tímum samkomutakmarkana í Bretlandi. Verið er að rannsaka hvort brot voru framin á sóttvarnalögum en uppljóstranir um samkvæmi hafa valdið Boris Johnson, forsætisráðherra, miklum vandræðum.

Ríkisstjórnin sökuð um að hóta þingmönnum og jafnvel kúga þá

Þingmenn Íhaldsflokks Englands, sem vilja velta Boris Johnson, forsætisráðherra, úr sessi sem leiðtogi flokksins, hafa orðið fyrir hótunum frá meðlimum úr ríkisstjórn Bretlands. Þetta segir einn þingmaður flokksins og ráðleggur hann flokksbræðrum sínum og systrum sem hafa orðið fyrir kúgunum að leita til lögreglunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×