Enski boltinn

Grun­sam­legt veð­mála­mynstur í kringum gult spjald vekur at­hygli enska knatt­spyrnu­sam­bandsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmaður Arsenal gæti hafa grætt á tá og fingri er hann nældi sér í gult spjald fyrr á leiktíðinni.
Leikmaður Arsenal gæti hafa grætt á tá og fingri er hann nældi sér í gult spjald fyrr á leiktíðinni. Alastair Grant/Getty Images

Enska knattspyrnusambandið skoðar nú undarlegt veðmálamynstur í kringum gult spjald sem leikmaður Arsenal fékk fyrr á leiktíðinni.

Samkvæmt frétt The Athletic um málið hafa veðmálafyrirtæki látið ensku úrvalsdeildina vita að í ákveðnum leik Arsenal hafi óhemju háar upphæðir verið lagðar undir á að ákveðinn leikmaður liðsins myndi fá gult spjald.

„Enska knattspyrnusambandið veit af málinu og er að rannsaka það,“ segir í yfirlýsingu sambandsins.

Í frétt The Athletic kemur einnig fram að fjölmiðillinn viti um hvaða leikmann er að ræða. Blaðamenn vilji þó ekki gefa það upp sökum persónuverndarlaga. 

Einnig kemur fram að fjöldi veðmálafyrirtækja hafi staðfest að veðmálamynstrið í kringum gula spjaldið hafi verið mjög óvenjulegt. Veðmál sem þessu eru talin algeng um heim allan en eru  einkar sjaldgæf í ensku úrvalsdeildinni þar sem leikmenn þar eru nær allir á mjög svo góðum launum.

Samkvæmt tísti frá notendanum Fob_Blog þann 18. desember má sjá að miklar upphæðir voru lagðar undir á að Granit Xhaka, miðjumaður Arsenal, myndi fá gult spjald í leik Leeds United og Arsenal þann sama dag. 

Þar kemur fram að tæpar 67 þúsund evrur hafi verið lagðar undir, það gera tæplega 10 milljónir íslenskra króna.

Arsenal vann leikinn 4-1 og Xhaka nældi sér í gult spjald þegar fjórar mínútur voru til leiksloka. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×