Varnarleikur Leeds áfram í molum og Arsenal gekk á lagið

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Sjóðheitur.
Sjóðheitur. vísir/Getty

Arsenal vann öruggan útisigur á löskuðu liði Leeds United í eina leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Lærisveinar Mikel Arteta höfðu unnið tvo leiki í röð þegar kom að leik dagsins á meðan lærisveinar Marcelo Bielsa vonuðust til að svara 7-0 tapi gegn Man City í síðustu umferð en mikil meiðsli hafa herjað á leikmannahóp Leeds að undanförnu.

Arsenal byrjaði leikinn af miklum krafti og hafði talsverða yfirburði í fyrri hálfleik.

Þá yfirburðu nýttu þeir vel og skoruðu þrjú mörk en Brasilíumaðurinn Gabriel Martinelli sá um að koma Arsenal í 0-2 á fyrsta hálftíma leiksins.

Illan Meslier í marki Leeds varði fjölda skota í fyrri hálfleik en honum tókst ekki að koma í veg fyrir að Bukayo Saka kæmi Arsenal í 0-3 á 42.mínútu.

Það var allt annað að sjá til Leeds í síðari hálfleik og þeim tókst að klóra í bakkann með marki úr vítaspyrnu á 75.mínútu. Það skoraði Raphinha en vítaspyrnan var dæmd eftir glórulausa varnartilburði Ben White í vítateig Arsenal.

Annan leikinn í röð kom Emile Smith Rowe inn af bekknum hjá Arsenal og skoraði því hann gerði síðasta mark leiksins á 84.mínútu og innsiglaði öruggan sigur Arsenal sem styrkti þar með stöðu sína í 4.sæti deildarinnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira