Erlent

Senda hermenn og skriðdreka til Gotlands

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermenn aka skriðdreka um götur Gotlands.
Hermenn aka skriðdreka um götur Gotlands. EPA/Karl Melande

Yfirvöld í Svíþjóð hafa ákveðið að fjölga hermönnum og vopnum á Gotlandi í Eystrasaltshafi. Ástæðan er sögð vera versnandi öryggisástand á svæðinu sem að miklu leyti má rekja til mögulegrar innrásar Rússa í Úkraínu.

Þá sendu Rússar nýverið nokkur skip inn í Eystrasaltshafið en þau eru sérhönnuð til að flytja hermenn. SVT sagði frá því í morgun að verið væri að sigla þessum skipum frá svæðinu.

Michael Claesson, einn yfirmanna sænska hersins, sagði í viðtali í morgun að Svíar vildu vera viðbúnir öllu og með mannafla á mikilvægustu svæðum landsins. Gotland væri eitt þeirra.

Sjá einnig: Segja Rússa undirbúa fölsun tilefnis til árásar

Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, sagði um helgina að Svíar mættu ekki vera barnalegir og að ekki væri hægt að útiloka árás á landið.

Sænski herinn hefur aukið viðveru sína verulega á Gotlandi um helgina.EPA/KARL MELANDER

„Svíþjóð verður ekki gripin í bólinu ef eitthvað gerist. Það er mikilvægt að sýna að við tökum ástandinu alvarlega,“ hefur FT eftir Hultqvist frá því um helgina.

Miðillinn segir Svía hafa aukið fjárútlát sín til varnarmála talsvert á undanförnum árum.

Svíar eru ekki í Atlantshafsbandalaginu en Eystrasaltslöndin þrjú, Eistlandi, Lettland og Lithaáen eru það og þau hafa hvatt Svía til að auka hernaðarviðveru þeirra á Gotlandi. Eins og bent er á í frétt VG er eyjan mjög mikilvæg vörnum Eystrasaltsríkjanna.

Ef ske kynni að stríð brytist út í Eistlandi, Lettlandi og Litháaen væri hægt að koma loftvörnum og flugvélum fyrir á Gotlandi sem myndu nýtast þar.

Svíar og Bandaríkjamenn héldu umfangsmiklar heræfingar árið 2017 en þær fólust meðal annars í því að verjast gegn ímyndaðri árás á Gotland.

Óhefðbundið umferðaröngþveiti á Gotlandi.EPA/Karl Melander


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×