Innlent

Gular við­varanir: Ekkert lát á vonsku­veðri

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Gular viðvaranir taka gildi víðsvegar á landinu í kvöld.
Gular viðvaranir taka gildi víðsvegar á landinu í kvöld. Veðurstofan

Gular viðvaranir taka gildi víðsvegar á landinu í dag en búist er við suðaustanstormi í nokkrum landshlutum.

Gul viðvörun tekur gildi klukkan 22 á höfuðborgarsvæðinu í kvöld. Gert er ráð fyrir suðaustan 18-25 metrum á sekúndu og rigningu. Hvassast á Kjalarnesi og snarpar vindhviður víðsvegar á svæðinu. Fólk er hvatt til að huga vel að lausamunum utandyra.

Á Suðurlandi tekur gul viðvörun gildi klukkan 21 og gert er ráð fyrir suðaustan 20-28 metrum á sekúndu. Hvassast undir Eyjafjöllum að Mýrdal. Vindhviður geta náð allt að 45 metrum á sekúndu og ferðaveður er varasamt.

Í Faxaflóa er gert ráð fyrir suðaustanstormi en gul viðvörun tekur gildi klukkan 21. Vindur á bilinu 18-25 metrar á sekúndu. Við Hafnarfjall geta hviður náð 40 metrum á sekúndu og hvasst verður á Reykjanesinu. Ferðaveður er varasamt.

Á miðhálendinu er „alls ekkert ferðaveður“ en gul viðvörun tekur gildi klukkan 18. Gert er ráð fyrir suðaustan 23-30 metrum á sekúndu með snjókomu eða skafrenningi. Skyggni verður nánast ekkert.

Í dag verður hiti á landinu á bilinu núll til fimm stig en í kringum frostmark fyrir norðan. Á austanverðu landinu er gert ráð fyrir breytilegri átt á bilinu 3-10 metrum á sekúndu með éljum á köflum en annars bjartviðri.


Tengdar fréttir

Allra veðra von næstu daga

Spáð er miklu austan hvassviðri í nótt og verða gular viðvaranir í gildi á Suðausturlandi, suðurlandi og Faxaflóa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×