Innlent

„Okkur þykir þetta einkennileg tilviljun“

Snorri Másson skrifar
Það er stutt á milli tveggja bústaða við Elliðavatn, sem hafa hvor um sig brunnið til grunna með um viku millibili. Varla tilviljun, segir slökkviliðið.
Það er stutt á milli tveggja bústaða við Elliðavatn, sem hafa hvor um sig brunnið til grunna með um viku millibili. Varla tilviljun, segir slökkviliðið. Vísir/Egill

Grunur leikur á um að sami brennuvargur hafi verið að verki í tveimur eldsvoðum sem hafa orðið við Elliðavatn á aðeins viku. Slökkviliðsmenn horfðu á sumarbústað brenna til grunna í nótt án þess að geta aðhafst nokkuð.

Sjá mátti síðustu glóðirnar í sumarbústað sem brann við Elliðavatnið í nótt þegar fréttastofu bar að garði í dag. Aðeins fjögur hundruð metrum frá brann annar bústaður fyrir aðeins um viku síðan. Fréttastofa ræddi þá við konu í stjórn bústaðafélagsins á svæðinu og hún sagði að fólki stæði ekki á sama.

Á milli þrjú og fjögur aðfaranótt síðasta miðvikudags kom upp eldur í skúr við Elliðavatn án þess að eldsupptök væru kunn. Viku síðar kemur upp eldur steinsnar frá á sama tíma um nótt en í það skiptið í sumarbústað sem sannarlega er viðvera í á sumrin. Það er altjón á staðnum.

Kristján Sigfússon, aðstoðarvarðstjóri Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.Vísir/Vilhelm

„Hér var alelda hús þegar við komum í nótt. Þá var markmiðið að vernda gróður hér í kring og leyfa þessu að brenna.  Þetta er náttúrulega þannig svæði að þetta gerir okkur slökkvistarf svolítið erfitt af því að þetta er vatnsverndarsvæði og við þurfum að takmarka notkun á slökkviefnum og slökkvivatni,“ segir Kristján Sigfússon aðstoðarvarðstjóri.

Langt er síðan eldur kom upp á þessu svæði. Rannsóknarlögregla kom á vettvang í dag en eru samkvæmt upplýsingum fréttastofu litlu nær um eldsupptök.

„Okkur þykir þetta einkennileg tilviljun,“ segir Kristján, og að leiða megi líkum að því að þetta sé íkveikja. Svo stutt sé á milli atvikanna. 

Nóttin var lygn með eindæmum og þeim mun tilkomumeiri var eldurinn. Þar sem slökkviliðsmenn gátu lítið gert til að hemja eldinn vörðu þeir kröftum sínum í að tryggja umhverfið og gróðurinn í kring.

„Þetta er bara mjög sorglegt og hvimleitt að þetta skuli gerast. Þetta setur gróður í hættu og vatnsból höfuðborgarsvæðisins líka í hættu, þannig að okkur þykir þetta ekki sniðugt mál,“ segir Kristján.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.