Enski boltinn

Svekkjandi tap í fyrsta leik Daníels Leó á tíma­bilinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Daníel Leó í leik með Blackpool á síðustu leiktíð.
Daníel Leó í leik með Blackpool á síðustu leiktíð. Dave Howarth/Getty

Miðvörðurinn Daníel Leó Grétarsson fékk loks tækifæri í byrjunarliði Blackpool er liðið sótti Huddersfield Town heim í ensku B-deildinni í dag. Gestirnir leiddu 2-1 í hálfleik en töpuðu 3-2 eftir að missa mann af velli í síðari hálfleik.

Daníel Leó fékk sjaldgæft tækifæri í byrjunarliði Blackpool í dag er liðið mætti Huddersfield í aðeins einum af tveimur leikjum dagsins í ensku B-deildinni í knattspyrnu. Daníel Leó var í hjarta varnarinnar ásamt Marvin Ekipiteta.

Jerry Yates kom Blackpool yfir strax á fyrstu mínútu leiksins en Danny Ward jafnaði metin á þriðju mínútu. Gary Madine kom gestunum aftur yfir á 18. mínútu og var staðan 1-2 í hálfleik.

Jordan Gabriel hafði fengið gult spjald undir lok fyrri hálfleiks og hann nældi sér í annað slíkt þegar klukkutími var liðinn. Blackpool því manni færri síðustu 30 mínútur leiksins.

Það nýttu heimamenn sér en Sorba Thomas jafnaði metin þegar tíu mínútur voru til leiksloka og skoraði sigurmarkið fjórum mínútum síðar.

Lokatölur 3-2 og svekkjandi tap niðurstaðan í fyrsta leik tímabilsins hjá Daníel Leó. Blackpool er sem stendur í 13. sæti með 30 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×