Erlent

Ó­míkron sett þúsundir flug­ferða í upp­nám um jólin

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá JFK-flugvelli í New York í Bandaríkjunum. Fjölda flugferða til og frá Bandaríkjunum hefur verið aflýst yfir jólin.
Frá JFK-flugvelli í New York í Bandaríkjunum. Fjölda flugferða til og frá Bandaríkjunum hefur verið aflýst yfir jólin. Scott Heins/Getty

Flugfélög víða um heim hafa aflýst flugferðum um jólin, með tilheyrandi uppnámi fyrir ferðamenn yfir hátíðarnar. Yfir 1.500 flugferðum milli landa hefur verið aflýst í dag.

Frá aðfangadegi til dagsins í dag, annars dags jóla, hefur hátt í sex þúsund flugferðum verið aflýst, samkvæmt breska ríkisútvarpinu. Ástæðan er mannekla, vegna hraðrar útbreiðslu Ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar.

Svo virðist sem kínversk og bandarísk flugfélög beri hitann og þungann af manneklunni, þar sem fjöldi starfsmanna þeirra hefur þurft að fara í sóttkví eða einangrun. Bara í dag hefur 450 flugferðum til og frá bandarískum flugvöllum verið aflýst. Þau bandarísku flugfélög sem verst hafa komið út úr ástandinu eru Delta, United og JetBlue.

United hefur áður tilkynnt að fjölgun Ómikron-smitaðra í samfélaginu hafi haft bein áhrif á áhafnir félagsins og stjórnendur þess. Félagið reyndi sitt besta til þess að láta farþega sína vita með góðum fyrirvara ef ferðir þeirra yrðu felldar niður.

Það flugfélag sem mest hefur mætt á á heimsvísu er kínverska flugfélagið Chinea Eastern, sem hefur aflýst 350 ferðum í dag. Kínverjar hafa tekið hart á fjölgun smitaðra í landinu. Til að mynda hefur verið sett á útgöngubann í 13 milljóna manna borginni Xi‘an, til þess að takast á við útbreiðslu Covid í borginni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×