Erlent

Frakkar gera ráð fyrir allt að 100 þúsund greiningum á dag

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Galeries Lafayette verslanamiðstöðin. Gripið hefur verið til verulegra takmarkana í Evrópu hvað varðar veitingastaði og öldurhús en verslanir fengið að starfa áfram að mestu.
Galeries Lafayette verslanamiðstöðin. Gripið hefur verið til verulegra takmarkana í Evrópu hvað varðar veitingastaði og öldurhús en verslanir fengið að starfa áfram að mestu. epa/Christophe Petit Tesson

Olivier Veran, heilbrigðisráðherra Frakklands, segir mögulegt að brátt muni 100 þúsund einstaklingar greinast daglega með Covid-19 í landinu en fjöldinn er nú í kringum 70 þúsund. 

Veran sagði í samtali við BFM TV að ómíkron yrði ráðandi afbrigðið í landinu í snemma í janúar. Engar nýjar aðgerðir væru á teikniborðinu og jafnvel þótt ekki væri hægt að útiloka neitt þá vonuðust stjórnvöld til að auknar bólusetningar yrðu til þess að halda veirunni í skefjum.

Á Bretlandseyjum eru 129 einstaklingar á spítala með ómíkron og fjórtán hafa látist. 

Gillian Keegan, undirráðherra í heilbrigðisráðuneytinu, sagði í samtali við Sky News að stjórnvöld myndu ekki hika við að grípa til hertra aðgerða ef tölurnar sýndu að það væri nauðsynlegt.

Boris Johnson forsætisráðherra greindi hins vegar frá því í gær að engar nýjar aðgerðir yrðu tilkynntar fyrir jól en opnaði á þann möguleika að eitthvað yrði gert eftir hátíðirnar.

Johnson er í nokkuð erfiðri stöðu, þar sem sérfræðingar hafa kallað eftir aðgerðum síðustu daga og vikur á sama tíma og þær eru afar umdeildar innan Íhaldsflokksins.

Í Þýskalandi hefur kanslarinn Olaf Scholz varað við því að fimmta bylgjan sé „rétt handan við hornið“ og stjórnvöld hafa tilkynnt um nýjar sóttvarnaðgerðir sem munu taka gildi í síðasta lagi 28. desember.

Stjórnvöld í Portúgal hafa fyrirskipað lokun bara og næturklúbba og fólk verið hvatt til að vinna heima frá 26. desember til 9. janúar. Þá verður ekki heimilt að safnast saman í stærri hópum en sem telja tíu einstaklinga utandyra á gamlárskvöld.

775 létust úr Covid í Póllandi á föstudag en um er að ræða mesta fjölda sem látist hefur á einum degi í fjórðu bylgju faraldursins þar í landi. Um 18 þúsund greindust með veiruna í Póllandi á föstudaginn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.