Erlent

Danska þingið lýsir yfir vantrausti á fyrrverandi innflytjendamálaráðherra

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Inger Støjberg mun þurfa að víkja af þingi það sem eftir er kjörtímabils.
Inger Støjberg mun þurfa að víkja af þingi það sem eftir er kjörtímabils. EPA/Mathias Lovgreen Bojesen

Danska þingið lýsti fyrr í dag yfir vantrausti á Inger Støjberg, fyrrverandi innflytjendamálaráðherra Danmerkur. Støjberg mun því þurfa að pakka niður í töskur og víkja af þinginu það sem eftir er kjörtímabils.

Tilefni vantrauststillögunnar er það að Støjberg var í síðustu viku dæmd í sextíu daga fangelsi í Ríkisrétti Danmerkur vegna yfirlýsingar sem hún gaf út í starfi sínu sem ráðherra árið 2016. Lýsti hún því yfir að stúlkur undir átján ára aldri og fullorðnir karlmenn, sem sóttu um hæli í Danmörku, skyldu skilin að í flóttamannabúðum.  

Ríkisréttur mat það svo að fyrirskipunin hafi brotið lög og að Støjberg hafi verið meðvituð um það. 

Miklar umræður voru um málið á danska þinginu í dag sem tóku nokkra klukkutíma. Støjberg sat sjálf aftast í þingsal en tók ekki þátt í umræðum. Einir helstu stuðningsmenn hennar voru þingmenn Flokks fólksins. Gagnrýndu þeir sérstaklega þingmenn Sósíaldemókrata og Frjálslyndra fyrir að hafa stutt tillögu Støjberg á sínum tíma en tala fyrir vantrausti á hana í dag.

Fréttin hefur verið uppfærð. Áður sagði að Støjberg hafi verið utanríkisráðherra en það hefur verið leiðrétt.


Tengdar fréttir

Meiri­hluti á þingi fyrir því að svipta Støj­berg þing­sætinu

Meirihluti er á danska þinginu fyrir því að svipta Inger Støjberg, fyrrverandi ráðherra innflytjendamála, þingsætinu í kjölfar dóms ríkisréttar landsins sem dæmdi fyrr í vikunni ráðherrann fyrrverandi í sextíu daga óskilorðsbundið fangelsi.

Støj­berg dæmd í sex­tíu daga fangelsi

Ríkisréttur Danmerkur dæmdi í dag Inger Støjberg, fyrrverandi ráðherra innflytjendamála, í sextíu daga óskilorðsbundið fangelsi. Hún var sakfelld af ákæru um að hafa látið stía í sundur ungum hælisleitendum í ráðherratíð sinni.

Réttarhöld yfir fyrrverandi ráðherra innflytjendamála hefjast í Danmörku

Ríkisréttur Danmerkur kemur saman í dag til að rétta yfir Inger Støjberg, fyrrverandi innflytjendamálaráðherra en hún er sökuð um að hafa látið stía í sundur ungum hælisleitendum í ráðherratíð sinni. Þetta er aðeins í annað skipti á heilli öld sem rétturinn er kallaður saman.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×