Íslenski boltinn

ÍBV endurheimtir markvörð frá KR

Sindri Sverrisson skrifar
Guðjón Orri Sigurjónsson er mættur aftur í ÍBV-treyjuna.
Guðjón Orri Sigurjónsson er mættur aftur í ÍBV-treyjuna. ÍBV

Eyjamaðurinn Guðjón Orri Sigurjónsson snýr aftur til Vestmannaeyja og verður með ÍBV í efstu deild í fótbolta á næstu leiktíð eftir að hafa síðast verið í herbúðum KR. Hann skrifaði undir samning sem gildir í tvö ár.

Guðjón Orri hefur verið varamarkvörður KR síðustu tvö ár, eftir að hafa gegnt sama hlutverki hjá Stjörnunni. Hann var síðast aðalmarkvörður með liði Selfoss í næstefstu deild árið 2017 þar sem hann lék alla leiki.

Guðjón Orri, sem er 29 ára gamall, lék síðast með ÍBV árið 2015, alls 13 leiki í Pepsi-deildinni.

KR hafði áður fyllt í skarðið fyrir Guðjón með því að fá Aron Snæ Friðriksson frá Fylki, til að vera Beiti Ólafssyni til halds og trausts.

Halldór Páll Geirsson hefur verið aðalmarkvörður ÍBV síðustu ár.

ÍBV vann sér sæti í efstu deild á nýjan leik nú í haust. Eftir síðustu leiktíð hefur félagið einnig fengið Alex Frey Hilmarsson frá KR, Halldór Jón Sigurð Þórðarson frá Víkingi og Andra Rúnar Bjarnason frá Esbjerg. Þá tók Hermann Hreiðarsson við þjálfun liðsins af Helga Sigurðssyni sem ákvað að flytja aftur upp á land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×