Erlent

Hafa loks náð saman um níu mánuði eftir kosningar

Atli Ísleifsson skrifar
Mark Rutte hefur gegnt embætti forsætisráðherra Hollands frá árinu 2010.
Mark Rutte hefur gegnt embætti forsætisráðherra Hollands frá árinu 2010. EPA

Hollensku stjórnmálaflokkarnir sem hafa starfað saman í stjórn frá árinu 2017 hafa loks náð saman um framhald stjórnarsamstarfsins, um níu mánuði eftir þingkosningarnar. Samkomulagið gerir það að verkum að forsætisráðherrann Mark Rutte mun stýra landinu sitt fjórða kjörtímabil.

Aldrei hafa stjórnarmyndunarviðræður tekið svo langan tíma í sögu landsins, eða heilan 271 dag.

Íhaldsflokkur Ruttes, VVD, varð stærsti flokkurinn á þingi eftir kosningarnar í mars síðastliðinn en þurfti stuðning hins evrópusinnaðaflokks, D66 og tveggja kristilegra flokka til að geta áfram stýrt landinu.

Nýr stjórnarsáttmáli e meðal annars sagður fela í sér aukið fé til húsnæðismála, hækkun barnabóta og aukinna útgjalda til heilbrigðis- og menntamála, að því er segir í frétt Reuters.

Þá er búist við að milljörðum evra verði varið í baráttuna við loftslagsbreytingar, en Holland losar einna mest magn gróðurhúsalofttegunda af ríkjum Evrópusambandsins, sé litið til höfðatölu.

Reiknað er með að nýi stjórnarsáttmálinn verði kynntur á miðvikudag og að ný ríkisstjórn Ruttes verði svo kynnt til sögunnar snemma á næsta ári.

Rutte hefur gegnt embætti forsætisráðherra Hollands frá árinu 2010 og er hann nú sá leiðtogi aðildarríkja ESB, ásamt Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, sem hefur lengst setið í embætti, eftir að Angela Merkel hætti sem kanslari Þýskalands.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×