Fótbolti

Ætlaði að kynna Guðjón sem nýjan þjálfara en fékk símtal sama dag: „Gaui er að fara upp í flugvél“

Sindri Sverrisson skrifar
Guðjón Þórðarson virtist vera að taka við Grindavík eftir tímabilið 2004 og Jónas Þórhallsson, þáverandi formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, hafði gert allt klárt fyrir blaðamannafund til að kynna Guðjón til leiks.
Guðjón Þórðarson virtist vera að taka við Grindavík eftir tímabilið 2004 og Jónas Þórhallsson, þáverandi formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, hafði gert allt klárt fyrir blaðamannafund til að kynna Guðjón til leiks.

Jónas Þórhallsson, fyrrverandi formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur til margra ára, boðaði til blaðamannafundar til að kynna Guðjón Þórðarson sem nýjan þjálfara Grindavíkur árið 2004 en frétti svo af því sama morgun að Guðjón væri í flugi á leið til Englands.

Jónas fór yfir þessa sögu í þættinum Foringjarnir á Stöð 2 Sport í gærkvöld. Jónas hafði lengi haft mikinn áhuga á að fá Guðjón til starfa hjá Grindavík, enda Guðjón þá búinn að ná mögnuðum árangri sem þjálfari á Íslandi og með íslenska landsliðinu.

Guðjón tók reyndar við Grindavík undir lok árs 2011 með tilheyrandi dramatík. Löngu áður, eftir tímabilið 2004, höfðu Jónas og félagar ákveðið að halda blaðamannafund til að kynna Guðjón til leiks sem nýjan þjálfara, eftir að hafa náð við hann samkomulagi.

Sama dag frétti Jónas af Guðjóni á leið til Englands þar sem þjálfarinn fór í viðræður um að taka við ensku 1. deildarfélagi, eftir að hafa áður þjálfað Barnsley og Stoke City í Englandi.

„Ég var alltaf gríðarlega hrifinn af öllu því sem að Gunnar Sigurðsson vinur minn var að gera uppi á Skaga, með Gaua [Guðjón Þórðarson] í brúnni sem þjálfara. Ég reyndi að fá Guðjón 2004-2005 en hann lét sig hverfa af landi brott. Við vorum búnir að gera samninga kvöldið áður og ætluðum að skrifa undir í hádeginu,“ sagði Jónas.

Klippa: Foringjarnir - Guðjón flaug í burtu

„Það var búið að setja út blaðamannafund. Við ætluðum að vera á skrifstofunni uppi í Þorbirni um klukkan 10-11, þrír fjórir úr baklandinu og Gaui. Fundurinn átti að vera klukkan 12. Svo var hringt í mig klukkan hálfátta að morgni og sagt: „Heyrðu Gaui er að fara upp í flugvél.“ Ég sagði bara: „Nei, nei, nei. Við erum með blaðamannafund hérna klukkan 12.“ „Nei, nei, hann er að fara hérna upp í flugvél.“ Ég byrjaði náttúrulega að hringja en það svaraði ekkert. Þannig fór sú tilraun,“ sagði Jónas.

„Síðan kom í ljós að hann var í viðræðum við Keflavík líka. Hann var með 2-3 félög í takinu,“ sagði Jónas en Guðjón samþykkti síðar að taka við Keflavík fyrir tímabilið 2005 en rétt áður en Íslandsmótið hófst snerist honum hugur, hélt á ný til Englands og tók við Notts County.

Síðar fór reyndar svo að Guðjón stefndi Grindvíkingum vegna vangoldinna launa þannig að segja má að skipst hafi á skin og skúrir í samskiptum þeirra í gegnum tíðina.

Foringjarnir eru á dagskrá Stöðvar 2 Sports á sunnudagskvöldum en þar ræðir Henry Birgir Gunnarsson við nokkra af helstu íþróttaforingjum landsins síðustu áratugi. Þættirnir eru einnig aðgengilegir á Stöð 2+.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.