Enski boltinn

Rangnick-á­hrifin ekki lengi að láta á sér kræla

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ralf Rangnick fagnar sigurmarki helgarinnar.
Ralf Rangnick fagnar sigurmarki helgarinnar. Simon Stacpoole/Getty Images

Ralf Rangnick var ekki lengi að setja mark sitt á Manchester United. Liðið lagði Crystal Palace 1-0 á Old Trafford í gær í fyrsta leik Þjóðverjans með liðið. Þar gerðist nokkuð sem hefur ekki gerst síðan Sir Alex Ferguson var þjálfari liðsins.

Síðan Sir Alex Ferguson ákvað að kalla þetta gott eftir ótrúlegan feril hefur Manchester United reynt ýmislegt. Nýjasta útspilið er að fá Ralf Rangnick, manninn á bakvið uppgang bæði Hoffenheim og RB Leipzig í Þýskalandi.

Ásamt því er Rangnick talinn ákveðið átrúnargoð fyrir þá kynslóð þýskra þjálfara sem ræður nú ríkjum á Englandi sem og víðar. Má þar nefna Julian Nagelsmann, Jürgen Klopp og Thomas Tuchel.

Rangnick vill sjá lið sín spila af mikilli ákefð og pressa hátt. Undanfarin misseri hefur það ekki verið hluti af leikstíl Manchester United en annað var upp á teningnum í leiknum gegn Palace í gær.

Leikmenn Man Utd unnu boltann alls 12 sinnum á síðasta þriðjungi vallarins á meðan leik stóð. Liðið hefur ekki unnið boltann jafn oft á síðasta þriðjungi síðan Sir Alex var þjálfarinn.

Það á enn eftir að koma í ljós hvort Rangnick nái árangri á Old Trafford en það er ljóst að það tók hann ekki langan tíma að setja mark sitt á liðið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×