Erlent

Abrams gerir aðra til­raun til að verða næsti ríkis­stjóri Georgíu

Atli Ísleifsson skrifar
Stacey Abrams var frambjóðandi Demókrata til ríkisstjóra í Georgíu árið 2018. Hún stefnir að því að vera það aftur á næsta ári.
Stacey Abrams var frambjóðandi Demókrata til ríkisstjóra í Georgíu árið 2018. Hún stefnir að því að vera það aftur á næsta ári. AP

Demókratinn Stacey Abrams hyggst gera aðra tilraun til að verða næsti ríkisstjóri Georgíuríkis í Bandaríkjunum. Í kosningum 2018 beið hún lægri hlut gegn Repúblikananum Brian Kemp, sem vann með 55 þúsund atkvæða mun.

Abrams tilkynnti um framboð sitt til ríkisstjóra í gær og stefnir því í annað einvígi milli þeirra Kemps og Abrams.

Eftir kosningarnar 2018 sakaði Abrams Kemp, sem þá stýrði skrifstofunni sem hélt utan um kjörskrár í ríkinu, um að hafa misnotað stöðu sína og reynt að torvelda kjósendum að skrá sig.

Vildi Abrams meina að það hafi sérstaklega hallað á svarta kjósendur þegar kom að skráningu, en Kemp hefur þó alla tíð hafnað ásökunum hennar.

Georgía hefur alla jafna verið eitt af vígum Repúblikana, en barátta Abrams vakti mikla athygli árið 2018 og er hún talin hafa gegnt lykilhlutverki þegar kom að því að auka kjörsókn svartra í Georgíu sem skilaði sér í sigri Demókratans Joes Biden í ríkinu í forsetakosningunum á síðasta ári.


Tengdar fréttir

Konan sem sveiflaði Georgíu til Bidens

Eftir að hafa tapað naumlega í ríkisstjórakosningum í Georgíu 2018 lék Stacey Abrams lykilhlutverk í árangri Demókrata í ríkinu í kosningunum í liðinni viku.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×